Fara í efni
Fréttir

Forgangsröðun fólks hefur breyst töluvert

Jón Jósafat Björsnsson, framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi.

Framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi segir að eftir því sem lengra líður frá hápunkti Covid heimsfaraldursins komi afleiðingar þeirrar heilsukreppu betur í ljós. Ein af stóru breytingunum er að gildismat fólks hefur breyst, segir Jón Jósafat Björnsson en fyrirtækið býður nú upp á námskeið á Akureyri 16. árið í röð.

Meðal þess sem farið er yfir á námskeiðum fyrirtækisins er hvernig hægt er að auka sjálfstraust og færni í samskiptum við aðra.

„Við sjáum það á fjölmörgum rannsóknum að forgangsröðun fólks hefur breyst töluvert. Tækifæri til fjarvinnu, jafnvægi á milli vinnu og einkalífs, velferð á vinnustaðnum og það að hafa tækifæri til sköpunar eru allt atriði sem hafa nú meira vægi en áður,“ segir Jón Jósafat.

40% velta fyrir sér að skipta um starf

„Í ljósi þess að Covid var heilsukreppa er eðlilegt að margir stokki spilin og hugsi hlutina upp á nýtt. Áhrifin komu misjafnlega við fólk, margir urðu fyrir skakkaföllum sem tengdust starfi, námi eða heilsunni. Eða horfðu upp á einhvern í fjölskyldunni eða í vinahópnum verða fyrir áhrifum. Þetta hefur orðið til þess að starfsfólk horfir nú til annarra hluta á vinnustaðnum sem þýðir að aðrar kröfur er nú komnar á stjórnendur. Atvinnuleysi er lágt á Íslandi sem þýðir að starfsfólk hikar ekki við að skipta um starf í dag og sýna nýjustu kannanir að enn eru tæplega 40% af starfsfólki að velta fyrir sér að hætta í núverandi starfi,“ segir Jósafat þegar hann er spurður um helstu áskoranir á vinnumarkaði í dag.

Nokkrir þjálfarar Dale Carnegie stilla sér upp fyrir myndatöku. Allir vildu að sjálfsögðu hafa skoðun á því hvernig staðið yrði að málum, eins og Jón Jósafat grínaðist með þegar hann sýndi blaðamanni myndina!

Mannlega hliðin snúi upp

„Eitt mikilvægasta verkefni stjórnenda er að auka virkni á vinnustöðum og tryggja þar með starfsánægju og góða framleiðni. Síðast liðinn áratug hafa það verið þrjú atriði sem ráða mestu um virkni: Trú á yfirstjórn, stefna fyrirtækisins og samband starfsmanns og næsta yfirmanns. Þessir þættir eru enn mikilvægir en nú koma atriði eins og jafnvægi vinnu og einkalífs og vinnuumhverfið sterkt inn,“ segir Jósafat.

„Samskiptin á vinnustaðnum og þar með menningin vegur svo þungt í vinnuumhverfinu. Ef það hefur einhvern tíman verið mikilvægt fyrir stjórnendur að snúa mannlegu hliðinni upp þá er það núna. Leiðtogar verða að hafa kjark og frumkvæði til að ræða við starfsfólk um líðan þeirra samhliða því að ræða um framtíð þeirra og markmið,“ segir framkvæmdastjórinn.