Fara í efni
Fréttir

Fór úr sjötugsafmæli föður síns á Siglufirði og fæddi við Kálfsskinn

Klippt á naflastrenginn! Elfa Sif Kristjánsdóttir og stúlkan hennar í sjúkrabílnum í nótt.

Fyrsta barn ársins hér á landi fæddist í sjúkrabíl við afleggjarann að bænum Kálfsskinni á Árskógsströnd í Dalvíkurbyggð þegar 23 mínútur voru liðnar af nýja árinu. Elfa Sif Kristjánsdóttir fæddi þá stúlkubarn sem var 14 merkur – 51 cm og 3,6 kíló. Faðirinn er Ásgeir Frímannsson.

Elfa Sif og Ásgeir búa á Ólafsfirði í Fjallabyggð en voru í hinum bæjarhlutanum, Siglufirði, í sjötugsafmæli föður Elfu, Kristjáns Björnssonar, þegar hún missti vatnið um tíuleytið. Kristján átti afmæli í gær og því munaði aðeins 23 mínútum að hann fengi dótturdótturina í afmælisgjöf!

„Þetta gekk allt eins og í sögu,“ sagði Elfa Sif í samtali við Akureyri.net í morgun. „Ég var ekki sett fyrr en 14. janúar en mamma var búin að segja í langan tíma að þetta yrði fyrsta barn ársins. Hún var alveg viss, þótt ég ætti ekki að eiga fyrr en tveimur vikum seinna!“

Flugeldar og fæðing

Þegar Elfa Sif missti vatnið var hringt eftir sjúkrabíl og hann var kominn á staðinn þremur mínútum síðar. Þrír sjúkraflutningamenn voru með í för og á Dalvík bættist Lilja Guðnadóttir ljósmóðir, í hópinn. „Við sóttum Lilju heim til hennar,“ sagði Ásgeir í morgun.

Þegar komið var að afleggjaranum heim að Kálfsskinni var ákveðið að halda ekki lengra. „Við stoppuðum þar um klukkan hálf tólf,“ sagði Ásgeir og stúlkan kom í heiminn um það bil 40 mínútum síðar. Leiðindaveður er í dag á þessum slóðum en þegar stúlkan fæddist var rjómablíða. „Við heyrðum í sprengingunum á miðnætti, einhverjar sjúkraflutningamannanna nutu þeirra, en ég sá þær ekki!“ sagði Ásgeir og hló. Hann hafði sannarlega öðrum hnöppum að hneppa.

Stúlkan er annað barn Elfu Sifjar en fyrsta barn þeirra Ásgeirs saman.

„Það var vissulega dálítið sérstakt að fæða í sjúkrabílnum, maður var búinn að búa sig undir að þetta yrði allt öðru vísi, en allt gekk ljómandi vel,“ segir hin nýbakaða móðir.

Mörg börn hafa fæðst í Kálfsskinni

Það er skemmtileg tilviljun að stúlkan skyldi fæðast við Kálfsskinn. Þar bjuggu til áratuga Ása Marinósdóttir, ljósmóðir, og Sveinn Jónsson, bóndi og húsasmíðameistari. „Þetta er aldeilis skemmtileg tilviljun – alveg dásamlegt að heyra þetta,“ sagði Ása þegar Akureyri.net færði henni tíðindin í morgun. „Ég tók á móti einum 20 til 30 börnum heima í Kálfsskinni á sínum tíma, einmitt vegna þess að móðirin komst ekki lengra. Nokkur fæddust í gamla húsinu en þegar Sveinn byggði stóra húsið hafði hann sérstakt herbergi fyrir mig, ef konur þyrftu að fæða hjá okkur.“

Ása tók einu sinni á móti barni í sjúkrabíl. „Það var skemmtileg tilviljun að Gunnhildur [Gylfadóttir] á Steindyrum hafði fengið mig til að halda námskeið fyrir konur, um það ef fæðingu bæri brátt að. Svo þegar þetta gerðist var slæmt veður, sækja þurfti sjúkrabílinn til Ólafsfjarðar og við komumst ekki lengra en að Fagraskógi. Við stoppuðum á hlaðinu og barnið fæddist þar. Það var einmitt Gunnhildur sem fæddi í sjúkrabílnum.“ sagði Ása.

Fyrsta barn ársins fæddist í sjúkrabíl

Elfa Sif og Ásgeir með litlu stúlkuna á Sjúkrahúsinu á Akureyri í morgun.