Fara í efni
Fréttir

Fólki finnst frábært að fá þessa þjónustu

Kjötiðnaðarmennirnir Stefán Einar Jónsson og Helga Oddný Hjaltadóttir í verslun Krónunnar. Ljósmyndir: Haraldur Ingólfsson

Í verslun Krónunnar sem opnuð var á Akureyri fyrir skemmstu er kjötvinnsla þar sem starfa tveir kjötiðnaðarmenn. Þeir vinna allt hráefnið á staðnum og setja fram í búð auk þess fólki býðst að láta hantera steikur eða annað kjöt eins og því hentar. 

„Þetta var augljóslega langþráð þjónusta að mati bæjarbúa miðað við móttökurnar. Viðbrögð fólks hafa verið alveg frábær,“ segir Stefán Einar Jónsson, kjötiðnaðarmeistari við Akureyri.net. Þau Helga Oddný Hjaltadóttir standa vaktina í kjötdeildinni og fólk er óspart á hrósið, að sögn Stefáns Einars.

„Við fáum kjöt frá birgjum hingað og vinnum það allt sjálf á staðnum. Ég panta til dæmis nautasteikur snemma og læt meyrna hér. Við leggjum mjög mikla áhersla á gæði.“ 

Einsdæmi

Stefán og Helga störfuðu bæði sem kjötiðnaðarmenn hjá Norðlenska áður. „Stjórnendur hjá Krónunni voru mjög ánægðir þegar gáfum bæði kost á okkur, ég held hreinlega að það sé einsdæmi að tveir kjötiðnaðarmenn starfi í einni verslun hér á landi. Það er töluvert um kokka en hvergi tveir kjötiðnaðarmenn eftir því sem ég best veit,“ segir Stefán.

„Þetta er eini staðurinn á Norðurlandi þar sem er kjötvinnsla í verslun fyrir utan verslun KS á Sauðárkróki, þar sem er lítil vinnsla. Við höfum bæði mikla reynslu og hér er mikil áhersla lögð á gæði, ferskleika og fagmennsku “

Stefán Einar var ráðinn til Krónunnar í júní á síðasta ári og hóf störf í september. Hann var í töluverðan tíma í Reykjavík til að kynnast því hvernig Krónan vill haga hlutunum. „Undirbúningurinn var langur enda er mjög mikill metnaður lagður í þetta hjá versluninni. Ég fylgdist lengi með til að hafa allt á hreinu, til að vita nákvæmlega hvernig Krónan vill hafa hlutina, hvað verslunin vill að við bjóðum upp á.“

Fólki finnst þetta frábært

„Við erum hér til að þjónusta fólkið og það er ótrúlega þakklátt; margir tala um hvað sé frábært að fá svona þjónustu. Ég get nefnt eitt dæmi: ef fólk vill kaupa frosið læri og fá það í sneiðar þá sögum við lærið. Við græjum það sem þarf að græja! Við hanterum líka steikur fyrir fólk,“ segir Stefán Einar og bætir við: „Mesta breytingin er sennilega fyrir þá sem búa einir eða tveir saman. Nú er ekkert mál lengur að kaupa það magn sem hentar. Fólk fær jafn mikið og það vill og þarf, og ef hjón vilja ekki borða sama matinn er málið einfalt: ef konan vill lamba fillet og karlinn nauta ribey þá segja þá okkur hve mikið þau vilja og við hanterum steikurnar.“ 

Helga Oddný Hjaltadóttir kjötiðnaðarmaður í Krónunni.

Þorrastemning

Bóndadagurinn er í dag eins flestum er líklega kunnugt; Þorrinn genginn í garð með tilheyrandi veisluhöldum. Stefán Einar segir mikið hafa verið að gera í aðdraganda Þorrans.

„Við leggjum mikið upp úr gæðunum varðandi þorramatinn eins og allt annað. Við erum með tvenns konar þorrabakka, bæði frá Múlakaffi og Norðlenska, en svo getur fólk líka valið það sem það vill úr kjötborðinu. Þar er allt sem þarf og við stillum að sjálfsögðu harðfisknum og hákarlinum þar upp líka. Hér er allt á einum stað.“

Stefán Einar Jónsson kjötiðnaðarmeistari hanterar steik fyrir viðskiptavin.