Fara í efni
Fréttir

„Fólki er bara farið að blöskra“

Fasteignasalarnir Greta og Tryggvi segja að það sé afar lítið framboð af eignum á Akureyri um þessar mundir. „Ég man ekki eftir að það hafi verið svona mikill tryllingur áður um hverja eign og svona mikið yfirverð,“ segir Greta. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Mikil spenna hefur verið á fasteignamarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu. Eignir stoppa þar stutt við og fara gjarnan á yfirverði. En hvernig er ástandið á fasteignamarkaðinum á Akureyri? Við fengum tvo fasteignasala til þess að setjast niður og fara yfir stöðuna, þau Gretu Huld Mellado hjá fasteignasölunni Byggð og Tryggva Gunnarsson hjá Eignaveri.

Þau Greta og Tryggvi segja að fasteignamarkaðurinn á Akureyri hafi verið mjög seljenda vænn undanfarið ár en spennan hafi þó ekki verið eins mikil og í Reykjavík.

Greta: „Það er alveg búin að vera mikil spenna hér líka, ég man ekki eftir að það hafi verið svona mikill tryllingur áður um hverja eign og svona mikið yfirverð. En það er búið að hægjast mikið á. Maður finnur það á opnum húsum, og það er ekki hringt eins mikið þegar ný eign kemur á sölu eins og var.“

Tryggvi: „Við erum alltaf svona 3-6 mánuðum á eftir höfuðborginni. Nú eru yfirboðin að hætta í Reykjavík svo nú fer það líka að „feida” út hér.“

Af hverju er að hægjast á markaðnum núna?

Tryggvi: „Vegna aðgerða Seðlabankans, þær hafa bara alveg gríðarlega mikið að segja í þessu.“

Greta: „Það eru td. hækkandi vextir og svo hafa verðin haldið áfram að fara hækkandi og fólki er bara farið að blöskra.“

Tryggvi: „Mér finnst bara skelfilegt að sitja fyrir framan fólk sem er að reyna að kaupa sér eign í fyrsta sinn og það er alveg sama hvað þau safna greyin, verðið bara hækkar og hækkar. Þessi 10-15% sem fyrstu kaupendur verða að eiga hafa bara étast upp á nokkrum mánuðum. Allt í einu þarf að bæta við og þetta sem fólk átti er ekki lengur 10-15%.“

Greta: „Fólk sem var að hugsa um eign á 30 milljónir og er búið að safna sér fyrir útborgun þarf núna að eiga helmingi meira. Bara á einu ári.“

En hvað er til ráða til að rétta markaðinn af?

Tryggvi: „Ég held að þetta sé bara rétt það sem Seðlabankastjóri er að gera núna. Við verðum að sporna við þessu.“

Greta: „Það er það sem þeir eru að gera, þeir eru að reyna að hægja á markaðinum.“

Tryggvi: „Við megum ekki heldur gleyma því að vextir í dag þeir eru lægri heldur en þeir voru fyrir þremur árum og svo er allt að verða vitlaust núna. Óverðtryggðir vextir voru 5,75 prósent fyrir þremur árum en eru ekki nema hvað, 4,70 og eitthvað núna. Við megum ekki fara á taugum. Ég held það sé bara gott að fara að núllstilla markaðinn, ekki bara hér á Akureyri heldur bara alls staðar.“

Greta: „Það eru líka örugglega margir sem hafa verið að maxa sig undanfarið. Ég hef heyrt frá fólki sem keypti fyrir rúmu hálfu ári að það er strax farið að finna fyrir því að greiðslubyrgðin sé orðin aðeins of mikil.“

Tryggvi: „Það er rosalegt að fólk sem keypti fyrir 6 mánuðum, að forsendurnar séu bara sprungnar.“

Tryggvi og Greta: Fyrir nokkrum árum var mjög óalgent að opin hús væru haldin á eignum á Akureyri en það hefur breyst. Nú er haldið opið hús á flestum eignum sem koma á sölu. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Hver núllpunkturinn á Akureyri núna?

Tryggvi: „Árið 2019 var núllpunkturinn 20 milljónir en í dag er hann svona í kringum 25-28 milljónir. Við erum ekkert að selja mikið undir 25 milljónum Greta er það?“

Greta: „Nei, það er ekki búið að vera mikið af eignum undir 25 eða undir 30 milljónum undanfarið, það liggur við að fólk spyrji hvort eitthvað sé að þessum eignum sem eru á þessu verðbili núna.“

Tryggvi: „Ég held að verðin fari að setjast.“

Greta: „Mér finnst það nú þegar vera byrjað að gerast, eða við viljum a.m.k að það gerist.“

Ha, viljið þið það? Það er nú alltaf talað um að það séu fasteignasalarnir sem séu að æsa verðin upp.

Greta: „Nei, þetta eru ekki fasteignasalarnir sem eru að hækka þessi verð heldur fólkið sem er að selja og kaupa og tekur þátt í þessu. En þegar það er lítið í boði og margir um hverja eign þá æsast allir upp. Svo kemur sambærileg eign í sölu og vill þá seljandinn fá það sama og hin eignin seldist á í yfirboði og svo heldur þetta bara áfram.“

Tryggvi: „Það er náttúrulega orðið skuggalegt þegar þriggja herbergja íbúð í 50 ára gamalli blokk við Tjarnarlund er komin upp í 46-7 milljónir 78 fm íbúð. Það er rosalegt verð.“

Þau segjast bæði hafa lent í því að hafa metið eignir faglega og sett á þær sanngjarnan verðmiða en síðan er haldið opið hús og eignin fer á 3-5 milljónum yfir ásett verð. Þá segja þau að mikið sé um að leigufélög og fjárfestar að sunnan séu að kaupa á Akureyri.

Greta: Það hefur verið, og er enn, svo mikill verðmunurinn hér og fyrir sunnan á sambærilegum eignum. Þú getur fengið svo miklu meira hér fyrir sömu upphæð. Fólk sér leik á borði að fjárfesta á Akureyri.“

Tryggvi: „Fjárfestar eru að fjárfesta hér og örugglega víðar um land í þéttbýliskjörnum.“

Hvers konar eignir vantar á markaðinn, eftir hverju er mest eftirspurn?

Tryggvi: „Það vantar allt. Alveg frá iðnaðarbilum og upp í góð einbýlishús.“

Greta: „Það er bara svo rosalega lítið til af öllu, núna vantar t.d. alveg nýbyggingar.“

Varðandi skort á nýbyggingum þá segja þau nokkra þætti spila þar inn í. Byggingaverktakar, sem áður voru oftast búnir að selja eignirnar þegar þær voru mjög stutt á veg komnar í byggingu, halda nú lengur í þær en vegna verðhækkana á aðföngum er erfitt að ákveða endanlegt verð. Tryggvi nefnir dæmi um að steypa hafi hækkað um 40% og steypustyrktarjárn um 35%. Þá hefur skipulagsvinna við nýtt hverfi í Vestursíðu dregist hjá bænum með tilheyrandi seinkunum hjá byggingarverktökum.

Fasteignamatið er að hækka. Á landsvísu er um methækkun að ræða frá hruni. Er hækkunin sanngjörn hér á Norðurlandi?

Tryggvi: „Já ég held hún sé eðlileg miðað við það sem hefur verið að gerast. En aftur á móti þá vonar maður bara að bærinn fari ekki að taka upp á því að fullnýta áfram þessar prósentur. Þeir verða að koma á móts við fólk. Það eru ekki skemmtileg skilaboð til fólks sem er búið að rembast við að kaupa sér íbúð í nokkur ár og er loks komið inn á markaðinn að fá þessa hækkun á fasteignamati í andlitið og jafnvel hækkun á fasteignaskatti. Það er mín skoðun.“

Greta: „Það getur orðið stórt stökk fyrir einhverja ef fasteignamat íbúða eru að hækka um 10 milljónir plús.“

Tryggvi: „Það getur alveg þýtt 100-130 þúsund kall í aukin útgjöld á ári.“

Hærra fasteignamat þýðir líka aukna möguleika til endurfjármögnunar en að sögn fasteignasalanna er landslagið aðeins að breytast hvað það varðara því bankarnir eru byrjaðir að horfa meira á fyrirhugað faseignamat fyrir 2023 í staðinn fyrir verðmat. Margir eru hræddir við að þrátt fyrir háa vexti muni margir munu spenna bogann of hátt og þeir svartsýnustu tala jafnvel um að annað hrun sé á leiðinni.

Tryggvi: „Nei ég held við séum ekki að sigla inn í annað hrun. Við lærðum svo mikið af hinu, ég held það.“

Greta: „Þó það séu sveiflur þá þýðir það ekki endilega hrun.“

En það er ekki bara hækkun á fasteignamati og fasteignaverði á Akureyri. Fleira hefur breyst. Nú er líka orðið algengara að halda opið hús á eignum á sölu, nokkuð sem ekki var venja fyrir nokkrum árum síðan.

Greta: „Í Reykjavík var alltaf boðið upp á opin hús en hér á Akureyri þá mætti fólk ekki á opin hús fyrir nokkrum árum. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að samfélagið er minna hér.“

Tryggvi: „Þú veist af hverju Akureyringar gefa ekki stefnuljós? Það er svo að nágranninn viti ekki hvert þú ert að fara. Þetta er dálítið þannig.“

Greta: „En núna, vegna þess að það eru svo margir um hverja eign þá getum við ekki staðið í því að vera að bóka 15 skoðanir og eins og staðan er í dag þá erum við frekar með opin hús og það hefur gefist vel.“

Tryggvi: „Fyrir 4-5 árum þá áttum við kannski fimm þriggja herbergja íbúðir sem komu til greina hjá kaupandanum. Þá var maður kannski á rúntinum með kaupendum á milli eigna í einn og hálfan tíma og heimsótti þessar fimm íbúðir með þeim.Það gerir maður ekkert lengur í dag.“

Að lokum, ef þið mættuð velja hvaða eign sem er á Akureyri, hver væri ykkar draumaeign?

Tryggvi: „Fyrir mann á mínum aldri þá myndi ég vilja vera uppi á efstu hæð einhvers staðar í glænýju fjölbýli. Í sirka 130 fm íbúð og þurfa ekki að gera neitt nema bara horfa til fjalla. Ég væri sáttur þar.“

Greta: „Ég væri til í einbýlishús á einni hæð, ég nenni engum tröppum. Það þyrfti að vera bílskúr og góð geymsla en ég vil ekki þurfa að eyða tíma í að brasa í lóðinni, í frítímanum vil ég frekar vera á fjöllum. Óska útsýni frá verönd væri Hlíðarfjall og Súlur og staðsetningarlega séð þá væri þetta hús einhvers staðar sunnarlega á Brekkunni í kringum Daggarlund. Þar er líka stutt í paradísina mína í Naustaborgum og Kjarnaskógi.“