Fara í efni
Fréttir

Flóra formlega orðin leigjandi Sigurhæða

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Kristín Þóra Kjartansdóttir, skrifuðu undir samninginn í gær - að sjálfsögðu á Sigurhæðum. Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Flóra menningarhús hefur tekið Sigurhæðir á leigu af Akureyrarbæ, eins og Akureyri.net greindi frá á dögunum. Samningur þar að lútandi var undirritaður í gær.

Húsið er leigt til fjögurra ára frá og með 1. júlí og á samningstímanum verða Sigurhæðir nýttar undir margvíslega menningarstarfsemi og viðburðahald.

Á aðalhæð hússins verður Flóra með starfsemi opna almenningi. Þar verður árlega sett upp innsetning í samvinnu við listafólk, hönnuði og safnafólk í tengslum við Matthías Jochumsson og Guðrúnu Runólfsdóttur, þeirra fólk, verk og þá tíma sem þau lifðu, að því er segir á vef bæjarins.

Eins verða þar hýstir aðrir viðburðir og sýningar, en rýmin verða líka nýtt til miðlunar og sölu á munum. Fólki gefst kostur á að nýta þá aðstöðu fyrir smærri fundi, kynningar, námskeið og annað í þeim dúr og eins fyrir móttöku smærri hópa, til að mynda úr skólum bæjarins.

„Á efri hæð og í kjallara verður í góðum anda starfrækt vinnuaðstaða fyrir skapandi fólk, listamenn og frumkvöðla, fyrst og fremst fólk sem vinnur með texta í ólíkum greinum. Starfsemi í vinnustofunum hefst strax í júlí og eins verða nokkrir minni viðburðir á aðalhæðinni í sumar og haust, en eiginleg starfsemi á aðalhæð hefst frá og með vorinu 2022,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Smellið hér til að lesa viðtalið við Kristínu Þóru um Sigurhæðir á dögunum.