Fara í efni
Fréttir

Flogið milli Akureyrar og Amsterdam á ný

Kristinn Þór Björnsson, markaðsstjóri Ferðaskrifstofu Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Flug milli Amsterdam og Akureyrar með hollenska flugfélaginu Transavia hefst á ný á morgun, föstudag. Flogið verður tvisvar í viku á næstunni, á föstudögum og mánudögum; síðasta vélin kemur til Akureyrar mánudaginn 14. mars. Unnið er að sumaráætlun sem kynnt verður síðar.

Verkefnið hófst árið 2019 þegar hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel bauð upp á vikulegar ferðir frá Akureyri til Amsterdam yfir sumarið. Árið eftir hófu Hollendingarnar að fljúga yfir veturinn, þá á milli Akureyrar og Amsterdam, tvisvar í viku í febrúar og mars.

„Ferðaskrifstofa Akureyrar hefur staðið dyggilega á bakvið verkefnið og reynt að efla eins og kostur er, meðal annars með því að kaupa ákveðinn fjölda sæta í öll flug. Þannig höfum við hlaupið undir bagga með Voight Travel og lítum á það sem samfélagslegt verkefni að efla flug um Akureyrarflugvöll,“ segir Kristinn Þór Björnsson, markaðsstjóri Ferðaskrifstofu Akureyrar, við Akureyri.net. „Samvinna okkar við Voigt travel hefur verið góð, og þeir færa ferðaþjónustunni á okkar svæði mikið líf – sérstaklega yfir vetrarmánuðina.“

Flugið datt upp fyrir á síðasta ári vegna Covid en þá höfðu verið uppi hugmyndir um að gefa í, segir Kristinn; lengja ferðatímabilið enn frekar.

„Við eigum laus sæti í flest allar brottfarir og sérstakt tilboð verður á flugsætum í febrúar,“ segir hann um flugið til Amsterdam. Kristinn minnir á að Hollendingar hafi verið að aflétta ýmsum takmörkunum vegna Covid upp á síðkastið. „Eins og reglur eru í dag er t.d. opið á veitingastöðum og helstu stöðum til klukkan 22 og lífið er að komast í sinn vanagang. Reikna má með enn frekari afléttingum í Hollandi á næstu vikum,“ segir hann.