Fara í efni
Fréttir

Fleiri sjúkraflug í fyrra en áður á einu ári

Mýflug, sem sinnir öllu sjúkraflugi innanlands, fór 887 slíkar ferðir á nýliðnu ári, fleiri en nokkru sinni áður á einu ári. Starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar voru alltaf með í för og fóru fjórar ferðir að auki – með Norlandair til Grænlands. Þeir fóru því alls í 891 sjúkraflug, fleiri en áður á sama árinu.

Alls voru 934 sjúklingar fluttir í ferðum Mýflugs en báðar sjúkraflugvélar félagsins þannig útbúnar að tveir liggjandi sjúklingar komast fyrir í hvorri vél. 

Samtals 130 sólarhringar á ári!

Skv. upplýsingum frá Slökkviliði Akureyrar er meðaltími hvers sjúkraflugs  þrjár og hálf klukkstund að meðtöldum undirbúningi og frágangi, sem gerir hátt í 3200 klukkustundir á árinu. Það er um 130 sólarhringar! 

Í tilkynningu frá Slökkviliði Akureyrar segir að starfsemin aukist jafnt og þétt. Fylgi það auknum íbúafjölda og ferðamönnum á Akureyri sem og þeim verkefnum sem liðið sinni utan Akureyrar.

„Nú starfa um 34 einstaklingar hjá slökkviliðinu þar sem sinnt er sjúkraflutningum, slökkvistarfi ásamt því að á Akureyri eru staðsettar tvær sjúkraflugvélar sem Slökkvilið Akureyrar sér um að manna, ásamt læknum þegar það ber við,“ segir í tilkynningunni.

„Almennt starfsvæði Slökkvilið Akureyrar í sjúkraflutningum er Eyjafjarðarsveit – Akureyri – Grenivík – Svalbarðseyri og Öxnadalurinn, ásamt hluta Þingeyjarsveitar. Í slökkvistarfi störfum við á sömu svæðum, ásamt því að koma til aðstoðar við önnur slökkvilið í okkar nærumhverfi.

Upptökusvæði sjúkraflugsins er allt Ísland. Auk þess fara starfsmenn okkar í sjúkraflug til nærþjóða okkar t.d. Grænlands, Danmerkur og Svíþjóðar.“

Miklar kröfur

„Slökkvilið Akureyrar hefur lagt mikinn metnað í aðkomu sinni að sjúkraflugi. Meðal annar er sett aukin menntunar og reynslukrafa gagnvart starfsmönnum sem sinna sjúkraflugi. Sú menntun og reynsla inniheldur m.a. sérhæfðari inngrip og þjónustu við bráðveika sjúklinga í teymisvinnu með svæfingarlæknum. Í alvarlegri útköllum eru sendir einstaklingar sem sótt hafa menntun erlendis, bráðatæknar, ásamt svæfingarlækni.“

Sjúkraflugvélarnar eru tvær og getur hvor um sig tekið tvo liggjandi sjúklinga, segir fyrr segir. „Eins og áður kom fram eru þær sérútbúnar og til að draga það saman má segja að þarna séu vélar sem eru eins og lítill spítali, með vængi.“