Fara í efni
Fréttir

Fleiri andvígir banni við lausagöngu en hlynntir

Mynd af vef Akureyrarbæjar

Fleiri Akureyringar eru andvígir banni við lausagöngu katta en hlynntir. Bæjarstjórn samþykkti í nóvember að banna lausagöngu frá 1. janúar 2025 en þjónustukönnun Gallup leiðir í ljós að 45% þeirra sem spurð voru eru andvíg ákvörðun bæjarstjórnar, 39% hlynnt og 16% tóku ekki afstöðu – svöruðu hvorki né. Nánast allir svöruðu, 98% aðspurðra.

Spurningin hljóðaði svo: Ert þú hlynnt(ur) þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar að banna lausagöngu katta í bænum?

  • Alfarið hlynntur 22%
  • Mjög hlynntur 8%
  • Frekar hlynntur 9%
  • Hvorki né 16%
  • Frekar andvígur 11%
  • Mjög andvígur 9%
  • Alfarið andvígur 26%

Karlar skiptust í tvo jafn stóra hópa – 42% þeirra eru hlynntir ákvörðun bæjarstjórnar en 41% andvígir. 17% svöruðu hvorki né.

Töluvert fleiri konur eru andvígar ákvörðun bæjarstjórnar, 50%, en 36% eru hlynntar henni. 14% svöruðu hvorki né.

Andvígir banninu voru spurðir hvort þeir hygðust grípa til sérstakra aðgerða í kjölfar ákvörðunar bæjarstjórnar, 35% svöruðu því játandi en 65% neitandi.

Niðurstöður könnunarinnar voru ræddar á fundi bæjarráðs í morgun. Þar var samþykkt að óska eftir frekari gögnum frá umhverfis- og mannvirkjasviði sem lögð verða til grundvallar frekari umræðu um málið í bæjarstjórn.

Smellið hér til að sjá niðurstöður könnunarinnar í heild.