Fara í efni
Fréttir

Fjölmennasta Pollamót Þórs í körfubolta

Ljósmyndir: Páll Jóhannesson
Fjölmennasta Pollamót Þórs í körfuknattleik frá upphafi fór fram með pompi og prakt í Íþróttahöllinni á Akureyri á laugardaginn var. Mótið heppnaðist stórkostlega að sögn mótshaldara, og keppendur skemmtu sér vel frá morgni og fram á rauða nótt. 
 
Á þriðja hundrað keppendur mættu til leiks í 25 liðum og komust þó færri að en vildu. Til að stækka mótið og hleypa fleiri liðum í fjörið er stefnt að því að lengja mótið frá og með næsta ári, hefja þá keppni á föstudags eftirmiðdegi og keppa allan laugardaginn. 
 
 
„Fullt af flottum tilþrifum sáust á mótinu í ár. Keppendur sýndu að þeir hafa alls ekki gleymt öllu og nýjir þátttakendur komu inn með glæsibrag og mikla gleði. Keppendur höfðu sannarlega einkunnarorð mótsins í heiðri og létu kappið ekki bera fegurðina ofurliði. Gleðin var með öðrum orðum við öll völd. Maður er manns gaman og svo er körfubolti skemmtileg íþrótt þar sem allir geta fundið sína fjöl. Þá er fátt skemmtilegra en að hitta gamla félaga úr boltanum og eignast nýja,“ segir í tilkynningu frá Þórsurum.
 
„Þegar upp var staðið voru það Kormáks-stelpur sem urðu hlutskarpastar í Pæjudeildinni (20 ára og eldri konur). Grjóti‘s Warriors unnu Polladeildina (25 til 39 ára karla) og SSA76 („gamla“ 76 landsliðið) stóð uppi sem sigurvegari í Lávarðadeildinni (karlar 40 ára og eldri).“
 
 
Í mótslok var blásið til mjög fjölmennrar grillveislu og kvöldskemmtunar þar sem aðalnúmerin voru Stebbi Jak og DJ Lilja. „Það er óhætt að segja að skemmikraftarnir hafi staðið undir nafni og hafi keyrt upp stemninguna enda skall fljótlega á með balli og tilheyrandi. Inn á milli tóku sigurvegarar við verðlaunum sínum auk þess sem Besta liðið fékk sérstök verðlaun fyrir bestu tilþrif mótsins. Þá var uppboð á árituðum treyjum og Íslandsmeistara-kúrekahatti, myndakassi, pílukastkeppni með veglegum vinningum og svo ávarpaði samfélagsmiðalstjarnan Leigh Ellis fjöldann.“
 
 
„Ísland er 17. landið sem Ellis heimsækir í ferð hans milli landa til að spila körfuknattleik en kappinn var áður með þátt á NBA TV og vinsælan hlaðvarpsþátt. Ellis stóð fyrir miðjuskotskeppni á Pollamóti Þórs í körfuknattleik þar sem Sigmundur Eiríksson vann ekta Shaquille O'Neal treyju og Sara María Davíðsdóttir vann 100.000 inneign hjá flugfélaginu PLAY. Þess ber einnig að geta að Helgi Hrafn Halldórsson fyrrum leikmaðurs meistaraflokks karla í körfuknattleik hjá Þór hafði veg og vanda af komu Leigh Ellis til landsins og kann mótsnefnd honum miklar þakkir fyrir þessa skemmtilegu viðbót.“
 
  • Nánar verður sagt frá heimsókn Leigh Ellis á Akureyri.net á morgun.
 
Í tilkynningunni þakka skipuleggjendur mótsins öllum keppendum fyrir þátttökuna og vonast til að sjá alla aftur að ári og enn fleiri til.
 
„Mótsnefnd þakkar þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg við mótið og sér í lagi þeim sem lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu til þess að láta allt ganga upp. Án ykkar framlags væri ekki hægt að halda svona mót. Einn af okkar frábæru sjálfboðaliðum, Páll Jóhannesson, tók fullt af myndum um miðbik móts eins og sjá má með því að smella [hér] ... “
 
Mótsnefnd þakkar einnig styrktaraðilum fyrir þeirra mikilvæga framlag; Kjarnafæði Norðlenska, Kristjánsbakarí, Coca Cola, Skógarböðin, Vök, Sel Hótel Mývatn, Jarðböðin og Akureyrarbæ.