Fara í efni
Fréttir

Fjölbreytt námskeið hjá Iðunni fræðslusetri

Iðan fræðslusetur sér um margvíslega símenntun fyrir iðnaðarmenn. Mynd: idan.is.

Iðan fræðslusetur sinnir símenntun starfsmanna í bílgreinum, bygginga- og mannvirkjagreinum, málm- og véltæknigreinum, prent- og miðlunargreinum og matvæla- og veitingagreinum. Námsframboðið er fjölbreytt og námskeið eru haldin víða á landinu. Iðan er í samstarfi við Byggiðn á Akureyri, Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri og Meistarafélag byggingamanna á Norðurlandi með námskeiðahald á Akureyri og nágrenni.

Ólafur Ástgeirsson er leiðtogi bygginga- og mannvirkjagreina hjá Iðunni og segir að yfirleitt séu haldin um 6-10 námskeið árlega á Akureyri og meirihluti þeirra hafi verið fyrir byggingariðnaðinn. „Næsta námskeið fyrir norðan er í næstu viku og það er um lagningu þakpappa,“ segir Ólafur í samtali við akureyri.net. Einnig sé á döfinni að halda námskeið um raka og myglu í húsum, sem er málefni sem mikið hefur verið í umræðunni undanfarin misseri. „Síðan ætlum við að vera með námskeið um loftþéttleikamælingar húsa í samvinnu við Verkmenntaskólann og einnig námskeið um brunaþéttingar og plastsuðunámskeið. Þetta er það sem er komið á dagskrá hjá okkur,“ bætir Ólafur við.

Sama verð á námskeiðum Iðunnar um allt land

Námsframboð Iðunnar er fjölbreytt og í stöðugri þróun og meðal annars er boðið upp á talsvert úrval af vefnámskeiðum. „Þau námskeið henta mörgum en auðvitað er margt af þessu sem við erum að gera sem snertir iðnað og iðnaðarmenn og þá erum við gjarnan með einhvern verklegan hluta með,“ segir Ólafur. Hann bendir líka á þá staðreynd að þótt Iðan standi fyrir námskeiðum víða úti á landi þá sé sama verð á námskeiðunum og á höfuðborgarsvæðinu.

Hjá Iðunni starfa líka náms- og starfsráðgjafar sem sérhæfa sig í að aðstoða einstaklinga við raunfærnimat, náms- og starfsval og veita almenna náms- og starfsráðgjöf. Iðan sinnir fjölbreyttum verkefnum eins og greiningu á fræðsluþörfum fyrirtækja og framkvæmd sveinsprófa í fjölmörgum greinum.

Iðan fræðslusetur