Fara í efni
Fréttir

Fjögur félög sameinast Kili stéttarfélagi

Ný stjórn Kjalar stéttarfélags.

Fjögur félög opinberra starfsmanna á landsbyggðinni hafa á síðustu vikum sameinast Kili, stéttarfélagi í almannaþjónustu. Um er að ræða Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Starfsmannafélag Dala og Snæfellsnessýslu, Starfsmannafélag Fjallabyggðar og Starfsmannafélag Fjarðabyggðar.

Félagssvæði Kjalar er því orðið enn víðfeðmara en áður og spannar nú nær samfellt svæði frá Borgarbyggð í vestri, vestur og norður um til Austurlands.

Sameiningarnar tóku strax gildi við samþykkt aðalfunda félaganna fjögurra og eru félagsmenn Kjalar stéttarfélags þar með orðnir um 2000 talsins. Þetta er veruleg stækkun á félaginu sem þar með er orðið annað stærsta aðildarfélag BSRB.

Fyrsti stjórnarfundur Kjalar eftir stækkun stéttarfélagsins var haldinn á dögunum. Fjórir nýir stjórnarmenn tóku þá sæti en það eru þau Björgúlfur Halldórsson, Neskaupstað, Guðbjörn Arngrímsson, Ólafsfirði, Helga Hafsteinsdóttir, Grundarfirði og Sigurður Arnórsson, Ísafirði. Aðrir stjórnarmenn eru Arna Jakobína Björnsdóttir, Akureyri, formaður, Árni Egilsson, Skagafirði, varaformaður, Hólmfríður Ósk Norðfjörð, Siglufirði, Ingunn Jóhannesdóttir, Borgarnesi, gjaldkeri, Elfa Björk Sturludóttir, Blönduósi, Hólmfríður Guðlaug Jónsdóttir, Dalvík og Kristín Sigurðardóttir, Akureyri, ritari. Varamenn eru Anna Klara Hilmarsdóttir, Akureyri og Ómar Örn Jónsson, Akureyri.

„Fyrsti stjórnarfundur Kjalar stéttarfélag eftir þessar breytingar var vinnufundur þar sem farið var ítarlega yfir verkefnin í kjölfar sameininganna og samþykkti stjórnin tímasetta starfs- og skipulagsáætlun fyrir næstu mánuði. Hún tekur til allra þátta í starfsemi félagsins í kjölfar sameininganna og meðal annars verður efnti til sérstakra skipulagsfunda um orlofs- og starfsmenntamál sem haldnir verða í janúar,“ segir á vef Kjalar.