Fara í efni
Fréttir

Fjarlægð ekki hindrun fyrir góðu félagsstarfi

Jóhanna Hildur Ágústsdóttir, nýr formaður Félags Kvenna í atvinnulífinu (FKA) Norðurlandi.
Jóhanna Hildur Ágústsdóttir, nýr formaður Félags Kvenna í atvinnulífinu (FKA) Norðurlandi.

„Ég er alveg sannfærð um að við munum halda áfram því góða starfi sem var hafið með rafrænum viðburðum í bland við viðburði í raunheimum,“ segir Jóhanna Hildur Ágústsdóttir, nýr formaður Félags Kvenna í atvinnulífinu (FKA) Norðurlandi.

FKA vinnur með aðilum á vinnumarkaði, fyrirtækjum, félagasamtökum og hinu opinbera að því að efla og benda á þátt kvenna í stjórnum eða stjórnunarstöðum í atvinnulífinu.

Félagskonur í landsbyggðadeild FKA Norðurlandi hittust á aðalfundi á dögunum, þar sem farið var yfir starfsárið og kosin ný stjórn. Jóhanna Hildur, sem tekur við formennsku af Fjólu Björk Karlsdóttur, er 29 ára og stofnaði nýverið veitingafyrirtækið Matlifun með eiginmanni sínum. „Ný stjórn var kosin og við Fjóla Björk, framkvæmdarstjóri Vorhús, Sif Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Háskólanum á Akureyri, og Alfa Dröfn Jóhannsdóttir, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, hlökkum til að keyra starfsárið í gang. Ísey Dísa Hávarsdóttir fór úr stjórn því hún er að flytja og Fjóla Björk fór úr formannssætinu en verður með okkur sem er ómetanlegt,“ segir Jóhanna Hildur við Akureyri.net.

„Um leið og við kveðjum félagsárið, þökkum við öllum félagskonum sem hafa verið duglegar að sækja fundi þrátt fyrir aðstæður í samfélaginu. Félagsárið hefur einkennst af rafrænum fundum fyrst og fremst en um leið hefur það sameinað okkur félagskonur um allt land og fært okkur nær hvorri annarri,“ segir formaðurinn.

Jóhanna Hildur segir fjarlægð ekki hindrun fyrir því að halda uppi góðu félagstarfi. „Við hvetjum allar konur á Norðurlandi, sem vilja kynna sér starfið, að setja sig í samband við okkur enda hafa síðustu mánuðir kennt okkur það að fjarlægðin er ekki hindrun fyrir því að halda uppi góðu félagstarfi.“

Heimasíða Félags kvenna í atvinnulífinu

Ný stjórn FKA Norðurlandi á rafrænum fundi; Fjóla Björk Karlsdóttir, Sif Jónsdóttir, Alfa Dröfn Jóhannsdóttir og Jóhanna Hildur Ágústsdóttir.