Fara í efni
Fréttir

Oddvitar í bæjarstjórn sáttir miðað við aðstæður

Oddvitar listanna í bæjarstjórn; Sóley Björk Stefánsdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Hilda Jan…
Oddvitar listanna í bæjarstjórn; Sóley Björk Stefánsdóttir, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Hilda Jana Gísladóttir, Gunnar Gíslason, Halla Björk Reynisdóttir og Hlynur Jóhannsson. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Allir oddvitar í bæjarstjórn Akureyrar virðast bærilega sáttir við fjárhagsætlun næsta árs, miðað við aðstæður í samfélaginu. Fyrri umferð um áætlunina fór fram á fjarfundi í gær, en eins og fram kom á Akureyri.net í síðustu viku er gert ráð fyrir að rekstrarhalli bæjarsjóðs á næsta ári verði ríflega einn milljarður króna. Aldrei í sögu bæjarins hefur verið gert ráð fyrir viðlíka rekstrarhalla.

Framsóknarflokkur, Listi fólksins og Samfylkingin mynduðu meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar eftir síðustu kosningar árið 2018, en í lok september í haust var tilkynnt að allir flokkar hefðu komist að samkomulagi um að starfa saman að stjórn bæjarfélagsins það sem eftir lifði kjörtímabilsins. Allir yrðu sem sagt í meirihluta, ef svo mætti segja.

Ánægjuefni, en þó ekki
„Það er ánægjuefni að fjárhagsáætlun 2021 er komin fram en það er í sjálfu lítið ánægjuefni að standa að framlagningu á fjárhagsáætlun þar sem gert er ráð fyrir halla upp á rúman milljarð króna,“ sagði Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, við Akureyri.net eftir fundinn í gær. „Það er hins vegar fátt um fína drætti í því ástandi sem ríkir, vaxandi atvinnuleysi, minni tekjuhækkun bæjarsjóðs sem dugar engan veginn fyrir auknum launakostnaði sem er verulegur. Það eru hins vegar í farvatninu ýmsar aðgerðir til frekari hagræðingar en einnig til þess að auka tekjur bæjarsjóðs án þess að auka álögur á bæjarbúa. Ánægjulegasta aðgerðin er að nú verða stigin ákveðin skref til að taka inn börn frá 12 mánaða aldri í leikskólana næsta haust á sama tíma og til stendur að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði,“ segir Gunnar.

Nokkur samhljómur var í máli bæjarfulltrúanna og fleiri lýstu til dæmis sérstakri ánægju með að 12 mánaða börnum gæfist kostur á leikskólaplássi frá og með næsta hausti.

Hugað að þeim viðkæmustu
„Heilt yfir er ég sátt við þá fjárhagsáætlun sem fyrri umræða var tekin um í bæjarstjórn, þó svo að ég hefði svo sannarlega kosið að fjárhagsstaðan væri betri,“ sagði Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar.

„Þeir lykilþættir sem ég tel skipta mestu máli er að ákveðið var að leggja sérstaka áherslu á fræðslumál og velferðarmál og huga þannig að viðkvæmustu hópum samfélagsins sem og hagsmunum barna og ungmenna. Ég tel að þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins þá sé mikilvægt að við höfum ákveðið að grípa til tiltölulega mildra aðgerða og verja störf eins og kostur er. Markmiðið er að brúa dýpstu kreppu samfélagsins vegna kórónuveirufaraldursins þannig að samfélagið okkar geti blásið til sóknar samhliða því sem faraldrinum slotar.

Þá tel ég mikilvægt að þrátt fyrir að fjárhagsstaða sveitarfélagsins sé þung, að horft verði til þess að pakka ekki aðeins í vörn heldur blása til sóknar með því að nýta hagstæða skuldastöðu og draga ekki úr framkvæmdum. Þá tel ég skipta miklu máli að leggja kapp á að hefja uppbyggingu í miðbænum. Stærstu framkvæmdirnar eru við endurbyggingu Lundarskóla og nýbyggingu leikskólans Klappa. Það sem ég er hvað ánægðust með er að þegar nýr leikskóli verður opnaður næsta haust verði hægt að bjóða börnum allt niður í 12 mánaða aldur leikskóladvöl.“

Bærinn ekki sjálfbær
Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, segir að ljóst hafi verið áður en heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á að bærinn væri ekki sjálfbær og virkilega þyrfti að taka til hendinni.

„En svo þegar Covid skellur á þá er bærinn í mikilli ábyrgðarstöðu og því þurfti að hægja á öllu saman. Það var gert til þess að vernda viðkvæma hópa og einnig störf hjá bæjarfélaginu. Nú styttist vonandi í bóluefnið og þá fer þessi vinna af stað og í sjálfu sér er hún hafin með ákveðnum undirbúningi hjá bæjarstjórn, þar sem búið er að deila niður verkefnum á smærri hópa innan bæjarstjórnar. Vonandi mun sú vinna skila sér með hækkandi sól.“

Verðskuldaðar launahækkanir
Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti VG, segist sátt við fjárhagsáætlunina í ljósi stöðunnar. „Það var ljóst, áður en covid kom, að við þyrftum að hagræða í rekstrinum til þess að standa undir þeim verðskulduðu launahækkunum sem samið var um í síðustu samningum starfsfólks sveitarfélaga. En vegna efnahagsástandsins í samfélaginu finnst mér ekki rétt að fara í mikinn niðurskurð nú þegar á fyrri hluta ársins 2021 heldur eigum við að sjá til hvenær samfélagið fer að rétta úr kútnum og þá getum við farið að grípa til meiri hagræðinga sem ég sé fyrir mér að snúist að mestu leyti um að draga úr yfirbyggingu innan stjórnsýslunnar frekar en að skera niður í þjónustu við bæjarbúa,“ segir Sóley.

Hálfnað er verk ...
Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-listans og forseti bæjarstjórnar, telur ánægjulegast „að geta staðið vörð um þjónustu við viðkvæma hópa þrátt fyrir erfiða stöðu. Á sumum stöðum hefur líka tekist að bæta í og verður t.d. bætt í þjónustu fyrir barnafólk með því að stefna á að taka inn öll 12 mánaða gömul börn á leikskóla,“ segir hún. „Það er mikilvægt að hið opinbera styðji við samfélagið í þeirri niðursveiflu sem við erum í, svo að allir séu tilbúnir í sókn þegar vírusinn gefst upp í þessu stríði. En hálfnað er verk þá hafið er og mikil vinna framundan við að bregðast við nýjum veruleika og fara í nauðsynlegar umbætur,“ sagði Halla Björk.

Ánægður með samstöðuna
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins, er formaður bæjarráðs. „Fyrst og fremst er ég ánægður með að við skulum vera samtaka í því að takast á við þetta verkefni. Staðan er erfið en við höfum sett fræðslu- og velferðarmál í forgang hjá okkur á þessum erfiðu tímum og ég er ánægður með það,“ segir Guðmundur Baldvin.

„Við erum að auka þjónustu við fatlaða, tókum í gagnið nýtt sambýli við Klettaborg á þessu ári og erum að taka í notkun 5 íbúðir á næsta ári fyrir fólk með fjölþættan vanda. Þá er einstaklega ánægjulegt að við ætlum, samhliða opnun leikskólans Klappa, að stíga það skref að bjóða börnum niður í 12 mánaða aldur leikskóladvöl og höfum þannig náð einu af stærstu stefnumálum þessa kjörtímabils. Við erum líka að setja í gang uppbyggingu íþróttamannvirkja þó vissulega finnist sumum við fara frekar hægt í þær sakir, og uppbygging miðbæjarins fer vonandi á stað strax á næsta ári. Ég held að þessi fjárhagsáætlun sé raunsæ og auðvitað hefði maður viljað sjá ýmsa hluti gerast hraðar en það er nú bara eins og það er. En stóra málið er að samstaða er um að grípa til mildra aðgerða við hagræðingu á næsta ári og með því ætlum við að brúa bilið þar til veirufjandinn hefur gefið sig.“