Fara í efni
Fréttir

Fermingar í kirkjum bæjarins um helgina

Fermingar í kirkjum bæjarins um helgina

Fermt verður í Akureyrarkirkju í dag og Glerárkirkju á morgun en samkomurnar verða öðruvísi en vant er, vegna samkomutakmarkana.

„Fermingar verða með töluvert öðru sniði en áætlað var. Nokkur barnanna gátu fært sig á annan dag í maí eða júní en alls sjö ætla að taka stóra skrefið þótt ekki geti verið nema þrjátíu alls í kirkjunni í athöfnunum,“ sagði séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju. „Öðru helgihaldi hefur verið aflýst en streymt verður frá kyrrðarstund við krossinn að kvöldi föstudagsins langa og verið er að vinna í að koma út páskamessu,“ sagði Svavar Alfreð við Akureyri.net í gær.

Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju, segir að strax síðasta haust hafi þau búið sig undir að fermingar gætu farið úr skorðum og því skráð fá börn á hverju athöfn.

„En í staðinn fyrir tvær athafnir núna á sunnudaginn verðum við með fjórar og buðum þeim sem vildum að fermast núna eða fresta því fram á vor eða sumar. Svo það verða fjögur börn í hverri athöfn og hvert barn má hafa fimm aðstandendur með sér. Þetta verða aðeins styttri athafnir og engin altarisganga, en fullgild ferming samt,“ sagði Sindri Geir við blaðamann. „Ég heyri það frá krökkunum að þeim sé alveg sama þótt að fresta þurfi veislunni og að það komist ekki allir, þau langar bara að fá að fermast! Svo þurfum við að taka stöðuna hvað við gerum með fermingarnar í apríl, í bili erum við ekkert voðalega bjartsýn á það að upphaflegu plönin muni ganga eftir,“ segir Sindri Geir.