Fara í efni
Fréttir

Fengu óvenjulegan „afla“ á Pollinum

Agnes Erla og Hólmar á kajaknum með tunnuna í eftirdragi.

Hólmar Erlu Svansson og Agnes Erla dóttir hans fengu óvenjulegan afla þegar þau réru á kajak um Pollinn við Akureyri í blíðviðrinu á páskadag.

„Við sigldum yfir pollinn og sjáum þar rauða tunnu í fjörunni. Agnes sótti tunnuna og við bundum hana aftan í kajakinn. Við rérum svo með hana yfir fjörðinn og drógum hana upp á Eimskipafélagsbryggjuna (vonum að þeir geti komið henni í málmaendurvinnslu ... takk),“ skrifaði Hólmar á Facebook.

Þegar feðginin réru að brúnni vestan við bryggjuna sáu þau þar eitthvað í kafi, „sem reyndist vera innkaupakerra úr Hagkaup. Við drógum hana upp í kajakinn og rerum inn að Hofi. Komum kerrunni í bílinn og skiluðum henni í Hagkaup.“

„Gaman að plokka á sjó, gera meira af þessu í sumar!“ skrifar Hólmar.