Fékk hugmyndina að Reisa.is á Hömrum

Reisa.is er nýtt bókunarkerfi og sjálfsafgreiðslulausn fyrir tjaldstæðarekendur á Íslandi. Akureyringurinn og tölvunarfræðingurinn Brynjar Ingimarsson er framkvæmdastjóri Reisa.is, en hann hefur þróað lausnina í samstarfi við íslensk tjaldstæði. Á árunum 2014-2019 vann Brynjar með námi sem tjaldvörður á Hömrum, þar sem hann kynntist frá fyrstu hendi þeim áskorunum sem fylgja tjaldsvæðarekstri og fékk hugmyndina að Reisa.is.
Brynjar rekur Reisa.is með viðskiptafræðingnum Heiði Vigfúsdóttur, rekstraraðila Camp Egilsstaða, en hún hefur líka mikla reynslu af tjaldsvæðarekstri. Í fréttatilkynningu segir Heiður að helstu markmið þeirra séu að styðja aðra rekstraraðila við að bæta sýnileika, hagræða í rekstri og skapa grundvöll fyrir rekstur fleiri tjaldsvæða yfir vetrarmánuðina.
Meira en bara bókunarkerfi
Reisa er meira en einfalt bókunarkerfi, hún er heildarlausn fyrir tjaldsvæði af öllum stærðum. Kerfið getur tengst öðrum lausnum eins og aðgangsstýringum, kassakerfi, sjálfsafgreiðslustöðvum, þvotta- og sturtustýringum, auk þess sem það býður upp á prentun límmiða á tjöld. Þar sem eldri lausnir hafa ekki hentað öllum, er nú loksins komið nýtt og betra val fyrir íslensk tjaldsvæði.
Heiður og Brynjar. Mynd: aðsend