Fara í efni
Fréttir

Fasteignagjöld 4,5 milljarðar á Akureyri

Mynd af vef Akureyrarbæjar.
Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Fasteignagjöld ársins á Akureyri eru 4,5 milljarðar króna. Álagningu er nýlokið og eru álagningarseðlar aðgengilegir fasteignaeigendum í þjónustugátt sveitarfélagsins og á island.is. 

Ekki er lengur boðið upp á greiðslu fasteignagjalda með boðgreiðslum á kreditkort, að því er fram kemur á vef bæjarins. Allar greiðslur fara fram með kröfu í netbanka. Vakin er athygli á þeim möguleika að skrá kröfur í beingreiðslu, það er hægt að gera í netbanka eða hjá viðskiptabanka greiðanda.

Álagningarseðlar eru ekki sendir út á pappír, sem bærinn segir spara bæði fé og fyrirhöfn og vera mun umhverfisvænna. Eftir sem áður geta þeir sem þess óska fengið álagningarseðil á pappír með því að fylla út umsóknarform í þjónustugáttinni – smellið hér til þess.

Álagningarprósenta fasteignaskatts er óbreytt á milli ára, 0,33% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis, 1,63% af öðru húsnæði og 1,32% af fasteignamati skóla, sjúkrahúsa, bókasafna og íþróttahúsa.

Heildarálagning fasteignagjalda ársins 2022 eru 4,5 milljarðar króna, sem fyrr segir, en var liðlega 4,2 milljarðar árið 2021. Skiptingin í ár er þessi:

  • Fasteignaskattur 2.616 milljónir króna
  • Lóðarleiga er 580 milljónir króna
  • Vatnsgjald er 360 milljónir króna
  • Fráveitugjald 546 milljónir
  • Sorphirðugjald 362 milljónir. Sorphirðugjald er lagt á 8.572 heimili sem er fjölgun um 180 heimili frá fyrra ári.

832 lífeyrisþegar fá afslátt

Á vef Akureyrar er minnt á að bæjarstjórn samþykkti breytingu á reglum um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum og hækkaði tekjumörk. Þar segir að 832 elli- og örorkulífeyrisþegar fái afslátt og „nemi heildarfjárhæð afsláttar tæplega 63 milljónum króna eða 75.160 krónur að meðaltali. Afslátturinn er mishár eftir tekjum en getur hæst farið í 117.700 krónur. 123 fasteignaeigendur njóta hámarksafsláttar. Auk þess njóta 272 fasteignaeigendur fulls afsláttar af sínum fasteignasköttum. Árið áður nutu 718 afsláttar af fasteignaskatti og nam heildarfjárhæðin 57 milljónum króna.„“

Reglurnar er hægt að nálgast hér. Afsláttur af fasteignaskatti er reiknaður út frá tekjum samkvæmt skattframtali 2021 og þarf ekki að sækja sérstaklega um.