Fara í efni
Fréttir

Fárviðri í fjallinu; rúmlega 40 m/sek

Strýtuskáli og endastöð stólalyftunnar Fjarkans. Þar var ekki stætt um helgina. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Fárviðri var um helgina á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli, suðvestan átt og vindhraðinn við Strýtuskála fór í rúmlega 40 metra á sekúndu. Þar var ekki stætt. Vindhraðinn við skíðahótelið var 27 metrar á sekúndu og varla hundi út sigandi. Svæðið var því lokað um helgina og unnið er að því að endurgreiða fólki lyftumiða, að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins.

Hávaðarok er í Hlíðarfjalli núna og ekki útlit fyrir að skíðasvæðið verði opnað í dag. Spáð er skaplegu veðri næstu daga. Snjó hefur töluvert tekið upp í hlýindum og hvassviðri síðustu daga en Brynjar Helgi vonast til þess að um leið og vind lægir verði hægt að hefjast handa við vinnu í brekkunum á ný.