Fara í efni
Fréttir

Fara má í sund, bíó og leikhús en ekki í ræktina

Ekkert líf hefur verið í Sundlaug Akureyrar undanfarnar vikur en nú verður breyting á. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið breytingar á sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi á fimmtudaginn. Varfærnar tilslakanir verða gerðar á reglugerð um takmarkanir á samkomum, eins og það er orðað, og gilda breytingarnar til 12. janúar. Reglugerð um takmarkanir á skólahaldi vegna farsóttar verður að mestu óbreytt til áramóta en gert er ráð fyrir að kynna fljótlega nýjar reglur um skólastarf sem eiga að taka gildi 1. janúar 2021.

Breytingarnar eru að mestu í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis í meðfylgjandi minnisblöðum. Eins og þar kemur fram hafa verið sveiflur í þróun COVID-19 faraldursins frá því að reglur um gildandi sóttvarnatakmarkanir tóku gildi. Töluverð fjölgun daglega greindra smita varð í lok nóvember en síðustu daga hefur tilfellum fækkað aftur og þeir sem hafa greinst hafa flestir verið í sóttkví. „Því er ljóst að sæmileg tök hafa náðst á faraldrinum á þessari stundu en jafnframt má segja að staðan á þessum tímapunkti er viðkvæm þar sem að brugðið getur til beggja vona“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis.

  • Fjöldatakmörkun: miðast áfram við 10 manns en með ákveðnum undantekningum
  • Börn: Ákvæði um fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímuskyldu taka ekki til barna sem fædd eru 2005 og síðar.
  • Verslanir: Allar verslanir mega taka á móti 5 manns á hverja 10 m² en að hámarki 100 manns.
  • Veitingastaðir: Heimilt verður að taka við 15 viðskiptavinum í rými. Heimilt verður að hafa opið til kl. 22.00 en ekki má taka á móti nýjum viðskiptavinum eftir kl. 21.00.
  • Sund og baðstaðir: Heimilt verður að hafa opið fyrir allt að 50% af hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi.
  • Íþróttir ÍSÍ: Íþróttaæfingar einstaklinga sem fæddir eru 2004 og fyrr eru heimilar með og án snertingar í íþróttum innan ÍSÍ í efstu deild. Æfingar afreksfólks í einstaklingsbundnum íþróttum eru heimilar. Æfingar sem krefjast snertingar innan bardagaíþrótta eru þó ekki heimilar.
  • Íþróttir almennings: Öllum er heimilt að stunda skipulagðar æfingar utandyra sem krefjast ekki snertingar.
  • Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir verða heimilir með allt að 30 manns á sviði, þ.e. æfingar og sýningar. Heimilt verður að taka á móti allt að 50 sitjandi gestum og þeim skylt að nota grímu og allt að 100 börnum fæddum 2005 og síðar. Hvorki hlé né áfengissala heimil. Sæti skulu númeruð og skráð á nafn.
  • Jarðarfarir: Hámarksfjöldi í jarðarförum verður 50 manns.
  • Gildistími: Framantaldar breytingar gilda frá 10. desember næstkomandi til 12. janúar 2021.