Fara í efni
Fréttir

Færðu Súlum 750.000 krónur að gjöf

Halldór Halldórsson, formaður björgunarsveitarinnar Súlna, og Laufey Egilsdóttir, sem afhenti gjöfina fyrir hönd fjölskyldna fjórmenninganna sem létust í flugslysinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Björgunarsveitin Súlur á Akureyri fékk í gær 750.000 krónur að gjöf í minningu fjögurra ungra MA stúdenta sem fórust í flugslysi á Öxnadalsheiði 29. mars árið 1958.

Minnisvarði um fjórmenningana var afhjúpaður á heiðinni í sumar. Fjölskyldur og vinir þeirra settu á stofn minningarsjóð til að standa straum af kostnaði, mun meira safnaðist en til þurfti og því var ákveðið að afgangurinn rynni til björgunarsveitarinnar.

Þeir sem létust í slysinu voru Bragi Egilsson, Geir Geirsson, Jóhann Möller og Ragnar Friðrik Ragnars. Allir höfðu lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið áður, voru við nám í Háskóla Íslands en flugu norður þennan örlagaríka dag í fjögurra sæta flugvél; hugðust heimsækja góða vini og gamla skólann sinn þar sem halda átti skemmtun um kvöldið.

„Okkur, fjölskyldum ungu mannanna, er það mjög kært að geta lokið verkefninu með þessari gjöf,“ sagði Laufey Egilsdóttir, systir Braga heitins, þegar hún afhenti Halldóri Halldórssyni, formanni Súlna, gjöfina í gær í húsakynnum sveitarinnar.

Fyrri fréttir Akureyri.net:

Stjórnarmenn í Súlum vinstra megin á myndinni: Jóhann Þór Jónsson, Hjalti Jóhannesson, Áskell Þór Gíslason, Guðmundur Guðmundsson, Njáll Ómar Pálsson, Halldór Halldórsson formaður og Elva Dögg Pálsdóttir. Fulltrúar gefenda hægra megin: Guðrún Ragnars, Gunnar Ragnars, Jens Helgason eiginmaður Guðrúnar, og Laufey Egilsdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson