Fara í efni
Fréttir

Færðu KAON eina milljón – níu hlaupa í ár

Ragnheiður Jakobsdóttir móðir Baldvins heitins og stjórnarmaður í sjóðnum, Helga Guðrún Númadóttir, stjórnarmaður, Hermann Helgi Rúnarsson bróðir Baldvins og formaður sjóðsins og Marta Kristín Rósudóttir verkefnastjóri hjá KAON.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis (KAON) fékk í gær eina milljón króna í styrk úr Minningarsjóði Baldvins Rúnarssonar til þess að geta haldið áfram að bjóða upp á heilsueflingu sem félagið býður upp á fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein.

Í tilkynningu frá KAON kemur fram að sjóðurinn afhenti félaginu einnig styrk í júní 2020 upp á eina milljón króna „með það markmið að hvetja krabbameinsgreinda til líkamsræktar og til að auka fræðslustarf um heilsurækt fyrir skjólstæðinga félagsins.“ Þar segir að vegna Covid hafi ekki verið hægt að byrja strax að nýta styrkinn en haldin hafi verið nokkur námskeið fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra, þeim að kostanaðarlausu.

Halda minningunni á lofti

Minningarsjóðurinn er stofnaður til minningar um Baldvin Rúnarsson sem lést eftir fimm ára baráttu við krabbamein í höfði, þann 31. maí 2019, aðeins 25 ára að aldri. „Tilgangur sjóðsins er að halda minningu um einstakan dreng á lofti með því styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum á söfnunarvef Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka. Hópur fólks hefur undanfarið ár tekið þátt í hlaupinu og safnað fé fyrir sjóðinn og að þessu sinni hlaupa níu í þeim tilgangi, en maraþonið fer fram næsta laugardag.

Í gærkvöldi höfðu safnast um 460 þúsund krónur í áheitum á hlauparana en Ragnheiður Jakobsdóttir, móðir Baldvins heitins, segir markmiðið að safna að minnsta kosti 500 þúsundum.

Sjóðurinn hefur á síðastliðnum þremur árum styrkt fjölda mörg félög og verkefni, þar má m.a. nefna þessi, sem talin eru upp á vef maraþonsins:

  • Hetjurnar, félag langveikra barna á Norðurlandi
  • DM Félagið
  • Kraftur Stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur
  • Heimahlynning Akureyri
  • Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis
  • Sjúkrahúsið á Akureyri, meðferðarstóll
  • Garðinn hans Gústa
  • Kvennaathvarfið Akureyri

Smellið hér til að heita á hlauparana eða sjá frekari upplýsingar