Fara í efni
Fréttir

Færðu fæðingardeild SAk 1,2 milljónir króna

Hópur fólks tekur sig til árlega og bakar reiðinnar býsn af möffins; bollakökum, sem skreyttar eru fagurlega og seldar í Lystigarðinum um verslunarmannahelgina. Ágóðinn af sölunni hefur ætíð runnið til fæðingardeildar Sjúkrahússins á Akureyri og í vikunni mættu nokkrar konur færandi hendi á deildina – með 1,2 milljónir króna.

Lína Björg Sigurgísladóttir, sem stýrði verkefninu Mömmur og möffins í ár er himinlifandi hvernig til tókst. „Ég er rosalega ánægð. Þetta er í þriðja skipti sem við förum yfir eina milljón og í fyrsta skipti yfir 1,2 milljónir,“ segir hún við Akureyri.net.

Það var 15 manna hópur sem bakaði að þessu sinni. Hann fékk inni í Naustaskóla, þar sem unnið var bæði í eldhúsinu og matreiðslustofunni. 

„Við bökuðum 2.600 möffins og seldum um 1.800,“ segir Lína. „Við fórum með mikinn meirihluta af afganginum upp á [hjúkrunarheimilið] Hlíð þar sem vel var tekið á móti kökunum. Restina fór ég svo með í kistuna hjá Matargjöfum á Akureyri og nágrenni.“

Það var Ingibjörg Jónsdóttir yfirljósmóðir Sjúkrahússins á Akureyri sem tók við gjöfinni. 

Á myndinni eru, frá vinstri: Anna Sóley Cabrera, Katrín Þóra Jónsson, Ingibjörg Jónsdóttir yfirljósmóðir, Erna Sigrún Hallgrímsdóttir, Lína Björg Sigurgísladóttir, Dóra Sif Indriðadóttir, Bryndís Björk Hauksdóttir, Sigríður Ásta Pedersen og Hafþór Friðrik Pedersen. Aðrir  sem lögðu hönd á plóg voru Kristrún Hallgrímsdóttir, Jóna Bergrós Gunnlaugardóttir, Helga Dögg Sverrisdóttir, Helga Fanney Benediktsdóttir, Izadora Gonzalez Alves Vaz, Hákon Freyr Benediktsson, Elísabet Anna Bjarnadóttir.

Bollakökurnar vöktu mikla lukku í ár sem endranær. Myndin er frá samkomunni í Lystigarðinum 5. ágúst síðastliðinn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson