Fara í efni
Fréttir

Færðu Bjarmahlíð 500 þúsund króna styrk

Við afhendingu styrks til Bjarmahlíðar. Frá vinstri: Bjarney Rún Haraldsdóttir ráðgjafi hjá Bjarmahl…
Við afhendingu styrks til Bjarmahlíðar. Frá vinstri: Bjarney Rún Haraldsdóttir ráðgjafi hjá Bjarmahlíð, Margrét Loftsdóttir Soroptimisti, Katrín Káradóttir Soroptimisti, Kristján Kristjánsson frá lögreglunni á Akureyri, Laufey G. Baldursdóttir Soroptimisti, Agnes Björk Blöndal lögfræðingur hjá lögreglunni á Akureyri og Ragnheiður Björk Þórsdóttir formaður Soroptimistaklúbbs Akureyrar.

Soroptimistar á Akureyri hafa fært Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, 500.000 króna styrk. Fénu var safnað meðan á 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi stóð frá 25. nóvember til 10. desember.

Bjarmahlíð býður upp á ráðgjöf og upplýsingar fyrir fólk sem hefur verið beitt ofbeldi. Einnig var styrkur sendur til Kvennaráðgjafarinnar sem veitir konum lögfræði- og félagsráðgjöf án endurgjalds, að því er segir í tilkynningu frá Soroptimistaklúbbi Akureyrar.

Vitundarvakning nauðsynleg

„Í tilefni af 16 daga átakinu #roðagyllumheiminn, #orangetheworld var söfnunarátak hjá öllum klúbbum um landið. Áhersla var lög á að roðagylla umhverfið og voru nokkrar opinberar byggingar lýstar upp, roðagylltar og Soroptimistar á Akureyri seldu meðal annars appelsínugul blóm,“ segir í tilkynningunni.

„Soroptimistar um allan heim hafa í ár eins og mörg undanfarin ár, slegist í för með um 6000 samtökum í 187 löndum sem leidd eru af Sameinuðu þjóðunum til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn stúlkum og konum með þátttöku í 16 daga átakinu #orangetheworld, #roðagyllumheiminn. Roðagyllti liturinn sem er litur átaksins táknar bjartari framtíð án ofbeldis gegn konum og stúlkum.

Þetta er í þrítugasta sinn sem átakið fer fram það hófst þann 25. nóvember á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum og stúlkum og því lauk þann 10. desember á hinum alþjóðlega mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna sem jafnframt er dagur Soroptimista. Markmið 16 daga átaksins er að beina athyglinni að alvarleika kynbundins ofbeldis, fræða almenning og hvetja til að ofbeldið verði stöðvað. Til þess þarf vitundarvakningu.“

Stafrænt ofbeldi

Í tilkynningunni segir að ein af hverjum þremur konum hafi verið beitt ofbeldi á lífsleiðinni og það sé eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heimi. „Nærri 140 konur eru myrtar á hverjum degi af nánum fjölskyldumeðlimi. Um 15 milljónir núlifandi unglingsstúlkna,15-19 ára, hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Konur eru 72% allra þeirra í heiminum sem hneppt eru í mansal og kynlífsþrælkun. 200 milljónir núlifandi stúlkna og kvenna hafa verið limlestar á kynfærum. Á hverri mínútu eru 23 barnungar stúlkur þvingaðar í hjónaband.

Áhersla íslenskra Soroptimista að þessu sinni beinist að stafrænu ofbeldi. Stafrænt ofbeldi fer fram gegnum tæki og tækni, svo sem síma, tölvu og samfélagsmiðla. Notkun á samfélagsmiðlum hefur aukist mikið undanfarin ár og sífellt fleiri konur og stúlkur eru áreittar, beittar ofbeldi, ofsóttar, niðurlægðar eða þeim ógnað gegnum þá. Með auknu aðgengi að stafrænum miðlum og útbreiðslu þeirra varð til ný og oft dulin nálgun á ofbeldi gegn konum og stúlkum þar sem oft er erfitt að rekja ofbeldið, verja sig gegn því og uppræta það. Það getur verið texti eða mynd með skilaboðum eða tölvupósti. Það er líka stafrænt ofbeldi ef einhver er að fylgjast með hvað þú gerir í símanum þínum og hvað þú gerir á netinu. Fólk sem verður fyrir stafrænu ofbeldi upplifir oft ótta, reiði, kvíða, þunglyndi og að vera ekki við stjórn á eigin lífi. Fólki finnst það ekki eiga neitt einkalíf, er líklegt til að einangra sig og upplifir hjálparleysi. Tíunda hver kona hafði orðið fyrir stafrænu ofbeldi fyrir heimsfaraldur Covid-19 en nú hefur fjöldinn aukist mikið.“

Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd „þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi. Soroptimistar segja nei við kynbundnu ofbeldi.“