Fara í efni
Fréttir

Ertu með rafræna gámakortið í símanum?

Rúmlega 1.500 manns hafa nú nálgast rafrænt klippikort fyrir gámasvæði bæjarins í gegnum íbúaapp Akureyrarbæjar, að því er segir á vef sveitarfélagsins í dag.

Veðrið leikur við Eyfirðinga þessa dagana og þegar sólin bíður gleðilegt sumar fyrir alvöru flykkist fólk jafnan út í garð, hreinsar til eftir veturinn og undirbýr blettinn fyrir gleðistundir næstu mánaða. Því má telja líklegt að margir geri sér ferð á gámasvæðið með garðaúrgang, auk þess að losa sig þar við annað sem til fellur og skylt er að flokka.

„Rafræna gámakortið kemur í stað gömlu pappakortanna sem fólk hefur notað fram að þessu. Rafræna kortið hefur fólk við höndina í símanum sínum og hakar við í appinu þegar farið er með úrgang til losunar. Hverri fasteign fylgja 16 klipp á ári en aðeins einn eigandi getur sótt inneign fyrir hverja fasteign. Viðkomandi getur hins vegar gefið klipp áfram til annarra fjölskyldumeðlima. Auk þess er hægt að kaupa inneign í appinu ef 16 klipp duga ekki yfir árið. Rétt er að geta þess að gömlu pappakortin gilda enn fyrir þau sem vilja,“ segir á vef Akureyrar.

Hér eru ítarlegar leiðbeiningar um notkun rafræna gámakortsins í íbúaappinu.

„Auk rafræna gámakortsins inniheldur íbúaappið sérstaka gátt sem gefur fólki kost á að senda sveitarfélaginu ábendingar um ýmislegt sem betur má fara eða hrósa því sem vel er gert. Ennig eru í appinu tilkynningar frá sveitarfeálginu, sorphirðudagatal, upplýsingar um stofnanir, viðburðadagatal og fleira.

Bæjarbúar eru eindregið hvattir til að prófa appið en það er hægt að sækja bæði í gegnum Appstore og Google Play.“