Fara í efni
Fréttir

Tóku út öryggi nýju lyftunnar

Tóku út öryggi nýju lyftunnar

Erlendir sérfræðingar unnu að öryggisúttekt á nýju skíðalyftunni í Hlíðarfjalli um helgina. Á þriðja tug sjálfboðaliða stóð vaktina og hlóð salt- og sandpokum í lyftuna af miklum móð; þar var um ræða „mannígildiskíló“ svo gripið sé til máls sjávarútvegsins. Verið var að prófa bremsubúnaðinn. Stefnt er að því að skíðasvæðið verði opnað um miðjan mánuðinn en lyftan fer þó að líkindum ekki í gang fyrr en eftir áramót.

Í hvern bekk lyftunnar var komið fyrir 350kg, sem á að samsvara því að fjórir skíðamenn séu þar á ferð. Alls voru því 700 kg færð til og frá 50 sinnum, því pokum var lyft upp og síðan teknir niður aftur. Gera má ráð fyrir að að einhverjir hafi fundið vel fyrir handleggsvöðvum þegar þeir vöknuðu morguninn eftir, jafnvel vöðvum sem fram að því voru óþekktir.