Fara í efni
Fréttir

Enga pappapoka í ruslið á Akureyri

Akureyringar hafa notað maíspoka undir lífræna ruslið og verður svo áframa samkvæmt upplýsingum frá jarðgerðarstöðinni Moltu sem breytir 80% af öllum matarleifum og lífrænum úrgangi á Norðurlandi í moltu.

Akureyringar þurfa ekki að óttast að þeir verði skikkaðir til þess að nota pappapoka undir lífræna sorpið eins og höfuðborgarbúar. Lífpokar hafa reynst vel á Norðurlandi og ekki stendur til að breyta yfir í pappann.

Nýjar flokkunarreglur á höfuðborgarsvæðinu gera ráð fyrir því að íbúar flokki heimilissorp sitt í fjóra flokka; matarleifar, blandaðan úrgang, plast og pappír/pappa. Ólíkt því sem hefur viðgengist á Akureyri þurfa íbúar á höfuðborgarsvæðinu að nota pappapoka undir sínar matarleifar og mega ekki nota maíspoka. „Ástæðan fyrir því að við förum þessa leið er að við sjáum að maíspokar brotna ekki nógu vel niður í jarðgerðarferlinu hjá okkur og birtast okkur því í raun sem plastagnir í moltunni. Pappírspokar eru hins vegar þess eðlis að þeir brotna algjörlega niður í ferlinu okkar,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson, samskipta- og þróunarstjóri hjá Sorpu.

Höfuðborgarbúar munu nota pappapoka undir sitt lífræna sorp í takt við nýjar flokkunarreglur. Mynd: Reykjavíkurborg

Engar breytingar í vændum

Að sögn Kristjáns Ólafssonar, framkvæmdastjóra Moltu, þurfa Akureyringar ekki að hafa áhyggjur af því að tileinka sér notkun pappapoka eins og höfuðborgarbúar þar sem tækjakostur Moltu og framleiðsluferlið sé allt annað heldur en hjá jarðgerðarstöðinni Gaja sem Sorpa rekur.

„Við erum mjög stolt af okkar framleiðslu og það gengur vel. Við fjárfestum í nýrri byltingarkenndri græju fyrir um 100 milljónir fyrir tveimur árum. Þessi tækni mengar minna, gerir ferlið hraðara og skilar betri moltu. Moltan okkar er ekki með neinum plastögnum enda eru lífpokarnir skildir frá matar úrganginum og urðaðir sér. Lífpokar notast því ekki í moltuna hjá okkur,“ segir Kristján. Spurður út í það hvort Molta hafi aldrei spáð í pappírspoka í stað lífpoka segir Kristján að sá möguleiki hafi verið skoðaður á sínum tíma. „En eftir að hafa prófað pappírspokana á litlum hópi þá fannst okkur þeir ekki reynast nógu vel. Við erum mjög sáttir við þær aðferðir sem við erum að nota í dag og sjáum ekki fram á að við séum að breyta þeim. Við erum að búa til langbestu moltuna á Íslandi bæði hvað hreinleika og næringarinnihald varðar.“

Kostir og gallar við bæði maís- og pappapoka

Þegar maíspokar og bréfpokar eru bornir saman þá hafa þeir báðir sína kosti og galla. Bréfpokarnir brotna fyrr niður í jarðgerðarfelinu á meðan niðurbrot maíspoka tekur lengri tíma. Þá eru bréfpokarnir líka kolefnisríkir sem getur gagnast vel við jarðgerð en séu þeir notaðir þarf að passa upp jafnvægið í blöndunni. „Bréfpokar eru fyrirferðarmeiri. Bæði í flutningi og til brúks. Það er t.d pláss fyrir um 2500 tóma maíspoka í innra hólfi tunnunnar á Akureyri en líklega ekki nema 50 bréfpoka. Bréfpokar loka inni raka í úrganginum. Þeir gegnum blotna og leka frekar, á meðan maíspokarnir taka minna pláss og „anda“ þannig að úrgangurinn þornar og lyktar síður. Ég hef sjálfur prófað bréfpoka og finnst þeir mun síðri. Matarleifarnar fóru að lykta mun fyrr inni hjá mér,“ segir Helgi Pálsson, rekstrarstjóri hjá Terra Norðurland. Hann bendir líka á að ef bréfpokarnir blotni geti þeir frosið fastir í tunnunni. Maíspokar frjósa hins vegar síður og því er auðveldara að eiga við þá.