Fara í efni
Fréttir

Elva og Kristín sjá um markaðsmál Glerártorgs

Elva Ýr Kristjánsdóttir og Kristín Anna Kristjánsdóttir.

Eik rekstrarfélag hefur ráðið þær Elvu Ýr Kristjánsdóttur og Kristínu Önnu Kristjánsdóttur til að stýra markaðsmálum fyrir verslunarmiðstöðina Glerártorg á Akureyri frá 1. mars.

„Saman búa þær að mikilli reynslu á sviði auglýsinga- og markaðsmála,“ segir í tilkynningu frá Eik.

Fram kemur að Elva Ýr hafi starfað undanfarin fjögur ár sem sölustjóri hjá fjölmiðlinum N4 ehf. auk þess að koma að markaðsmálum, stefnumótun og viðburðum. Kristín Anna hefur starfað hjá N4 ehf. síðustu ár sem yfirhönnuður og stýrt grafískum verkefnum, þar áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri Handverkshátíðarinnar í Eyjafirði ásamt því að koma að ýmsum öðrum viðburðum.

„Við erum mjög ánægðar að fá að takast á við þetta krefjandi og spennandi verkefni. Glerártorg hefur verið í miklum og örum vexti undanfarin ár og við teljum að það séu mörg tækifæri þar sem snúa að markaðsstarfinu. Við erum að koma úr mjög góðu, skapandi umhverfi og erum fullar tilhlökkunar að kynnast bæði fólkinu og þeirri fjölbreyttri starfsemi sem snýr að Glerártorgi og Eik fasteignafélagi,“ er haft eftir þeim í tilkynningunni.