Fara í efni
Fréttir

Elko keypti gömul raftæki fyrir 10 milljónir

Starfsfólk Elko á Akureyri klappar fyrir fyrsta viðskiptavininum, þegar verslunin var opnuð í febrúar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

ELKO greiddi viðskiptavinum sínum rúmar 10 milljónir króna fyrir notuð raftæki á árinu 2020 vegna verkefnisins Fáðu eitthvað fyrir ekkert.

ELKO kaupir notuð raftæki á borð við snjallsíma, spjaldtölvur, fartölvur og leikjatölvur og kemur þeim í endurvinnsluferli Foxway sem er samstarfsaðili ELKO í þessum efnum. Þannig fóru yfir 2.000 notuð raftæki frá íslenskum neytendum í endurvinnslu eða endursölu á síðasta ári. Raftækin eru öll yfirfarin, metin og ýmist seld aftur, ákveðnir partar endurnýttir eða tækin endurunnin eins og kostur gefst. „Ótal gömul raftæki sem eru ekki lengur í notkun liggja í skúffum hér og þar en með þessu móti gefst viðskiptavinum kostur á að koma þeim í verð eða skipta þeim upp í ný um leið og gömlu tækin fara í ábyrgt endurvinnslu, eða endurnýtingarferli“, segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri ELKO.