Fara í efni
Fréttir

Eldri borgarar bekkja Mývatnsstíginn

Ásdís Illugadóttir, formaður félags eldri Mývetninga, og Hólmfríður Jónsdóttir, gjaldkeri félagsins, við einn af bekkjunum níu sem búið er að koma fyrir við göngustíginn. Þessi bekkur er merktur félaginu. Vindbelgjarfjall í baksýn.

Fyrstu níu bekkirnir sem Félag eldri Mývetninga safnaði fyrir og keypti hjá Steinsmiðju Akureyrar eru nú komnir á sinn stað og byrjaðir að þjóna hlutverki sínu við nýjan göngustíg við Mývatn. Á endanum verður vonandi kominn stígur allt í kringum vatnið og fleiri bekkir allan hringinn. Nú þegar hefur safnast fyrir eða komin loforð fyrir alls 17 bekkjum. 

Ásdís Illugadóttir í Félagi eldri Mývetninga fékk þá hugmynd fyrir tveimur árum að gaman væri að koma fyrir bekkjum við göngustíg sem er í vinnslu í kringum Mývatn. Göngustígurinn sjálfur er reyndar nokkurra ára verkefni og óvíst hvenær hringnum verður lokað. Ásdís fór með hugmyndina á aðalfund Félags eldri Mývetninga og fékk hún góðar viðtökur. Þá strax var ákveðið að vinna að þessu verkefni og félagið sjálft hefur gefið tvo bekki. Ásdís hefur svo greinilega snarað fram einhverju úr eigin vasa eins og fleiri félagsmenn.


Ásdís Illugadóttir kom með hugmyndina að verkefninu og hefur greinilega líka lagt fleira af mörkum. Mynd: Steinsmiðja Akureyrar.

Í framhaldinu sendu þau erindi til fyrirtækja með starfsemi í Mývatnssveitinni og auglýstu síðan í Hlaupastelpunni, vikulegu fréttablaði sem gefið er út í Þingeyjarsveitinni. Þar stendur meðal annars: „Kveikjan að hugmyndinni er sú að auðvelda heimafólki að ganga frá heimili sínu og hafa möguleika á að tylla sér niður og hvíla lúin bein annað slagið á leiðinni áður en haldið er til baka, en augljóslega munu bekkirnir gagnast öllum gestum og gangandi/hjólandi. Hreyfing er mikilvæg, og að ganga úti er heilsusamlegt eins og fólk veit og teljum við að verkefnið sé verðugt í því tilliti. Ekki eru allir svo heppnir að geta gengið eða hjólað en eiga þó möguleika á að komast á bíl á staði með fögru útsýni til fjallanna eða út á Mývatn og þá er gott að geta sest niður á bekk og notið stundarinnar.“


Svona leit auglýsingin/bréfið sem Félag eldri Mývetninga birti í Hlaupastelpunni, vikulegu fréttablaði í Þingeyjarsveitinni.

Alsæl með viðtökurnar

Ásdís segir félagið hafa fengið snilldartilboð frá Birni Vignissyni í Steinsmiðju Akureyrar og var ákveðið að kaupa bekkina af honum. „Þeir eru úr graníti, þægilega hannaðir, algjörlega viðhaldsfríir í fögrum náttúrulitum sem falla vel að umhverfinu,“ eins og segir í auglýsingu félagsins. „Okkur fannst nauðsynlegt að hafa bekki við þennan göngustíg og keyrðum á þetta í vor,“ segir Ásdís um þetta skemmtilega verkefni. „Við erum alsæl með viðtökurnar!“ 

Félagið hefur fengið átta bekki og er komið með loforð fyrir alls 14 bekkjum. Framlög hafa borist bæði frá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Áletranir á bekkina eru eftir vilja þeirra sem „kaupa“ þá. Á fyrstu tveimur bekkjunum er einfaldlega nafn Félags eldri Mývetninga, en síðan ræðst það einfaldlega af vilja gefenda hvað á þá verður áletrað. Getur verið ljóðlína, tilvitnun, spakmæli eða bara nafn gefandans. 


Félag eldri Mývetninga hefur gefið tvo af þeim níu bekkjum sem komnir eru á sinn stað. Hér er hugmyndasmiðurinn og formaður félagsins, Ásdís Illugadóttir, ásamt gjaldkeranum, Hólmfríði Jónsdóttur. 

Miðað við viðtökurnar má svo búast við að fleiri fyrirtæki og einstaklingar leggi verkefninu lið og bíði einfaldlega eftir því að stígurinn lengist og plássunum fyrir bekkina fjölgi. Kínverskt, indverskt og mongólskt granít í íslensku hrauni. Listaverk náttúrunnar með smá hjálp frá mannshöndinni og verkfærum hennar. Það er líka kostur við granítbekkina að þeir taka vel við sólarljósinu og þarf ekki mikla sól til að þeir byrji að bræða af sér á veturna.

Nú þegar hefur um fimm kílómetra kafli af göngustígnum verið malbikaður, frá Reykjahlíð suður að Dimmuborgaafleggjara, auk þess sem langt er komið með að undirbyggja næsta áfanga, suður að Skútustöðum. Sá hluti sem ekki hefur verið malbikaður er reyndar notaður af íbúum og ferðafólki þó hann sé ekki fullkláraður. Vegagerðin kostar 80% af stígnum og sveitarfélagið 20%, en Mývetningar hafa núna í um ár verið hluti af Þingeyjarsveit eftir sameiningu sveitarfélaga.