Fara í efni
Fréttir

Ekki verði keyptar vörur frá Ísrael – MYNDIR

Gengið var frá Íslandsklukkunni við HA, niður í bæ og safnast saman á Ráðhústorgi. Mynd: Þorgeir Baldursson

Boðið var til svokallaðrar Sniðgöngu, á laugardaginn, til þess að efla vitundarvakningu og sýna samstöðu með Palestínu. U.þ.b. 100 manns mættu og hópurinn gekk frá Íslandsklukkunni við Háskólann á Akureyri, sem leið lá niður á Ráðhústorg. Þar voru haldin erindi og tónlist spiluð, en það er sniðgönguhreyfingin BDS Ísland, félagið Ísland-Palestína, Vonarbrú og Dýrið - félag um réttinn til að mótmæla, sem stóðu að viðburðinum saman. 

Sniðgönguhreyfingin á Íslandi kallar eftir því að ekki verði keyptar vörur frá Ísrael til að auka efnahagsþrýsting

Í tilkynningu fyrir viðburðinn á Facebook lýsti hópurinn yfir vonbrigðum með máttlausar aðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn Ísrael, en með vitundarvakningu um sniðgöngu er miðað að því að upplýsa almenning um þær leiðir sem hægt er að fara persónulega, til þess að sniðganga ísraelsk áhrif. 

„Því miður þurfti hreyfingin að endurtaka mótmælagöngu sína fyrir Palestínu í ár, þar sem síðasta ár hefur ekki sýnt endalok kúgunar og þjóðarmorðs Ísraels á Palestínu og sérstaklega á Gaza,“ segir Yvonne Höller, ein að skipuleggjendum viðburðarins. „Sniðgönguhreyfingin á Íslandi kallar eftir því að ekki verði keyptar vörur frá Ísrael til að auka efnahagsþrýsting. Reyndar hefur Ísraelsstjórn nýlega tilkynnt að landið sé sífellt einangraðra efnahagslega. Þetta er að minnsta kosti að einhverju leyti afleiðing alþjóðlegrar sniðgöngu sem íslenska deildin leggur sitt af mörkum til. Fleiri íslensk dæmi sýna að sniðgangan er árangursrík. Til dæmis hefur Akureyri hætt að nota Rapyd, kreditkortafyrirtækið frá Ísrael,“ segir Yvonne.

Á vefnum www.snidganga.is eru upplýsingar um fyrirtæki og vörur sem BDS Ísland hefur bent á í þessu samhengi.

T.v. Ísland-Palestína og Vonarbrú buðu varning til sölu til styrktar Palestínu. T.h. Mörg gengu með skilti þar sem bannmerki er yfir fyrirtækjum sem mælt er með að sniðganga. Myndir: Yvonne Höller

Mynd: Þorgeir Baldursson

Myndir: Yvonne Höller