Fara í efni
Fréttir

Ekki grímur utandyra og ókeypis hraðpróf

Stuðningsmenn knattspyrnuliðs KA á einum leikja sumars - þegar ekki var grímuskylda. Þeim verður heimilt að vera svona „klæddir“ á ný næst. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að gera enn frekari tilslakanir á samkomutakmörkunum en tilkynntar voru í gær, en þær gildi á morgun. Grímuskylda á viðburðum utandyra verður felld brott og skýrar kveðið á um heimild til að halda einkasamkvæmi í veislusölu og sambærilegu húsnæði fram yfir miðnætti. Ráðherra hefur einnig ákveðið nánari útfærslu á notkun hraðprófa á viðburðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar segir ennfremur:

  • Ekki krafa um grímu hjá sitjandi gestum á íþróttaviðburðum

Grímuskylda hefur almennt ekki verið utandyra nema á viðburðum svo sem íþróttakappleikjum þar sem gestir eru sitjandi en ekki hægt að virða eins metra nálægðarmörk. Með reglugerðinni sem tekur gildi á morgun verður ekki lengur þörf á að bera grímu við þessar aðstæður utandyra.

  • Einkasamkvæmi

Nauðsynlegt þótti að skýra nánar í reglugerð heimild til að halda einkasamkvæmi fram yfir miðnætti, í húsnæði þar sem vínveitingaleyfi er ekki nýtt þótt það kunni að vera til staðar og er það gert hér með. Hér er átt við samkvæmi þar sem skilgreindur hópur skráðra boðsgesta kemur saman, s.s. í brúðkaupum eða afmælisveislum.

  • Nánar um hraðpróf og heimild til að nýta þau

Með reglugerðarbreytingunni er nánar kveðið á um útfærslu á notkun hraðprófa á viðburðum. Í samræmi við það sem fram kom í tilkynningu Stjórnarráðsins í gær um boðaðar tilslakanir og notkun hraðprófa hefur í dag verið fundað með hagsmunaaðilum sem standa fyrir stórum viðburðum til samráðs um frekari útfærslu, s.s. fulltrúum íþróttahreyfingarinnar, samtökum atvinnuveitenda í sviðslistum og fleiri aðilum. Nú liggur fyrir ákvörðun um að á viðburðum þar sem hraðpróf eru nýtt verður fólki heimilt að taka niður grímu þegar það situr. Enn fremur verður börnum á leik- og grunnskólaaldri heimilt að mæta á slíka viðburði án þess að krafist sé niðurstöðu úr hraðprófi.

Stefnt er að því að framkvæmd hraðprófa eins og hér um ræðir verði komin á fullt skrið um miðjan september og að prófin verði þá gjaldfrjáls. Í undirbúningi er að leita samninga um framkvæmdina.