Fara í efni
Fréttir

„Ekkert til sem heitir Við og Þið“

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Séra Hildur Eir Bolladóttir var sett í embætti sóknarprests í Akureyrarkirkju við messu í morgun, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Í predikun dagsins ræddi hún m.a. um líðan nútímamannsins, hugsanir, gjörðir og samskipti við annað fólk.

„Á því er engin ein skýring en ef kirkjan hefur einhvern tíma haft ríku hlutverki að gegna þá er það einmitt nú þegar við höldum að til séu patent lausnir við öllu og eftir situr fjöldi fólks í angist vegna þess að sannleikurinn er sá að það er ekki til nein patent lausn við því erfiða verkefni að vera manneskja, já það er erfitt að vera manneskja en það er líka ofboðslega fallegt þegar því er skilningur sýndur,“ sagði séra Hildur Eir meðal annars í predikuninni, sem hún gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta í heild.

„Það er fátt jafn fallegt í veröldinni eins og geta mannsins til að vera samferða öðrum í þjáningum þeirra. Eins og við upplifum reglulega hérna í kirkjunni þegar horft er á eftir mannfjöldanum ganga á eftir kistunni við útför til að bera sorgina með nánustu ástvinum. Þessi samfylgd þar sem við erum öll á sömu leið og hinn látni. Dag einn verður nefnilega ekkert okkar hér og eina sem eftir stendur er að við vorum samferðarfólk sem játuðu saman syndir okkar, bárum hvert annars sorgir, héldum hvert öðru ábyrgu, sýndum hvert öðru miskunnsemi af því að enn og aftur, það er ekkert til sem heitir VIÐ og ÞIÐ. Við erum öll eitt í Kristi Jesú.“

Smellið hér til að lesa prédikun Hildar Eirar.