Fara í efni
Fréttir

Eitt fallegasta hús Akureyrar til sölu

Strandgata 49 hýsir veitingastaðina Austur og Eyr. Þar voru líka skrifstofur flugfélagsins Niceair áður til húsa. Myndir: Hvammur.is

Elsta hús Oddeyrarinnar, gamla Gránufélagshúsið, hefur nú verið auglýst til sölu. Húsið hýsir nú veitingastaðinn Eyr og pitsastaðinn Austur - pizza bar.

Að sögn eiganda hússins, Róberts Häsler, sem er jafnframt rekstraraðili veitingastaðanna sem í húsinu eru, þá langaði hann að sjá hvort einhver áhugi væri fyrir húsinu. „Þetta eru bara þreifingar. Húsið er stórt og býður upp á fjölbreyttari rekstur en þann sem er hér núna. Það væri gaman að fá enn meira líf í þetta stóra og mikla hús, maður veit aldrei nema einhver þarna úti sé með góða hugmynd,“ segir Róbert en skrifstofur Niceair voru m.a. áður í húsinu.

Hús með möguleika

Róbert sér ekki fyrir sér að veitingastaðirnir tveir sem fyrir eru í húsinu séu að fara þaðan heldur miklu frekar að nýir eigendur geti fengið leigusamning með í kaupunum.

  • Sjá fyrri umfjöllun Akureyri.net um veitingastaðina hér 

„Það er auðvitað allt samkomulagsatriði. Eitt er víst að þetta hús býður upp á marga möguleika. Það er ótrúlega fallegt, vel við haldið og á besta stað í bænum,“ segir Róbert.

Húsið hefur verið gert upp á mjög smekklegan hátt.

Miklar endurbætur 2013

Eins og áður segir er gamla Gránufélagshúsið við Strandgötu 49 eitt elsta húsið sem stendur á Oddeyrinni en það er með skráð byggingarár 1880. Sjá fyrri umfjöllun um sögu hússins hér 

Samkvæmt fasteignaauglýsingu frá fasteignasölunni Hvammi – sjá hér – hefur húsið, sem er 606,7 m² að stærð, verið mikið endurnýjað á síðustu 30 árum. Árið 2013 voru gerðar miklar endurbætur á því og það sett í það form sem það er í dag. Gólfhiti er á jarðhæðinni og allar raf- og vatnslagnir voru endurnýjaðar árið 2013. Árið 2018 var gler endurnýjað og húsið málað að utan.

Við húsið er gott útisvæði.