Fara í efni
Fréttir

Eins manns rusl er annars gull

Garðar Kári Garðarsson matreiðslumeistari rannsakaði nýtingu á lífrænum úrgangi með það að markmiði að framleiða úr honum eldsneyti. Aðsendar myndir.

Garðar Kári Garðarsson kynnir í dag lokaverkefni sitt við auðlindadeild Háskólans á Akureyri þar sem hann skoðaði nýtingu á lífrænum úrgangi með það að markmiði að framleiða úr honum eldsneyti.

Við Háskólann á Akureyri eru lokaverkefni stúdenta margvísleg og mörg hver takast á við samfélagslegar áskoranir. Eitt af þeim verkefnum er BS lokaverkefni Garðars Kára Garðarssonar í líftækni, þar sem hann skoðaði nýtingu á lífrænum úrgangi með það markmið að framleiða úr honum lífeldsneyti. Verkefnið féll þannig vel að markmiðum hringrásarhagkerfisins og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, en orkuendurnýting er ein leið til þess að halda úrgangsmyndun í lágmarki og minnka þannig meðal annars skaðleg áhrif á líf á landi á sama tíma og staðbundin sjálfbærni samfélaga á borð við Akureyri er aukin.

Matreiðslumeistari með metnað fyrir nýtingu

„Ég valdi líftækni í miðju covid þegar að matreiðslugeirinn lá í dvala. Valið á líftækni kom til vegna þess að mig hefur lengi langað til þess að leita nýjunga í matvælaiðnaði, hvort sem að það sé í framleiðslu, umbúðir og meðhöndlun eða sóun sem fylgir faginu,“ segir Garðar Kári um ástæður þess að hann valdi að stunda nám við Háskólann á Akureyri.

Garðar er matreiðslumeistari sem hefur starfað á ýmsum veitingastöðum og hótelum á Íslandi, lengst af á Deplum á Tröllaskaga eða í um sex ár. „Ég var í kokkalandsliðinu í sjö ár, og tók virkan þátt í keppnismatreiðslu á heimsmeistara mælikvarða í fjölmörgum löndum,“ bætir hann við um reynslu sína.

Vinkonurnar sykrur og örverur

Þessi reynsla og áhugi Garðars kveikti áhugann sem varð að lokaverkefninu enda er hann með gríðarlega mikla innsýn í þá matarsóun sem felst í veitingabransanum. Það er mjög verðmætt að fólk með slíka reynslu skoði möguleikana á frekari nýtingu á matvælum. Í verkefninu nýtti hann lífrænan úrgang sem er fjölsykruríkur til þess að mynda endurnýjanlega orku. Sykrurnar eru brotnar niður í minni einingar með rafsegulbylgjum sem örverur, m.a. gersveppir, geta gerjað í lífeldsneyti. Þessar tvær aðferðir að brjóta niður sykrurnar með rafsegulbylgjum og gerja þær síðan með örverum reyndust skila góðum árangri saman. Það er mikilvægt að vinna í því að finna leiðir til betri nýtingar á matvælaúrgangi því urðun myndar mikið magn gróðurhúsalofttegundanna metans og koltvísýrings.

Rafsegulgeislun til niðurbrots

Í kynningu á verkefninu segir meðal annars: Matarúrgangur er dæmi um vannýttan, orkumiklan lífmassa sem hægt væri að endurnýta í meira mæli með hjálp líftækninnar. Orkunotkun eykst á heimsvísu frá ári til árs og er aðallega háð jarðefnaeldsneyti sem er óendurnýjanleg auðlind. Nýta má rafsegulgeislun til niðurbrots á endurnýjanlegum lífmassa á borð við lífrænt sorp með það að markmiði að losa um einsykrur sem síðan má gerja með hjálp dreif- og/eða heilkjörnunga í nytsamleg efni á borð við lífeldsneyti (etanól). Í þessu verkefni voru fjölsykrurnar pektín og sterkja úr ofþroskuðum eplum vatnsrofnar með hjálp rafsegulgeislunar við súrar aðstæður. Eftirfarandi þættir voru bestaðir: geislunartími, sýrustyrkur og magn hvarfefnis. Í framhaldi var vatnsrofsefnið gerjað með gersveppnum S. cerevisiae. Hámarks etanólframleiðsla sem fékkst úr 50 g/L af frostþurrkuðum eplum var tæplega 380 mM af etanóli. Þetta samsvarar um 96 g af etanóli úr 1 kg af ofþroskuðum eplum. Þessar niðurstöður gefa tilefni til frekari rannsókna, enda styður virðisaukning úrgangs af þessu tagi við hringrásarhagkerfið á Íslandi.

Málstofa og streymi í dag

Verkefnið vann Garðar undir handleiðslu Sean M. Scully og Evu Maríu Ingvadóttur aðjúnkta við auðlindadeild HA. Garðar Kári mun, ásamt Evu Maríu, fara yfir verkefnið og niðurstöður þess á málstofu sem haldin verður í stofu 102 í Háskólanum á Akureyri kl. 15-16 í dag. Málstofunni verður einnig streymt á netinu - sjá hér.