Fara í efni
Fréttir

Einn Akureyringur Íþróttamaður ársins

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 100

Alfreð Gíslason er eini Akureyringurinn sem hefur verið kjörinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna. Alfreð hlaut þá eftirsóttu nafnbót 1989 eftir að Ísland sigraði í B-heimsmeistarakeppninni í handbolta sem fram fór í Frakklandi, og upplagt að rifja það upp nú þegar akureyri.net birtir 100. gömlu íþróttamyndina.

Myndin er tekin fimmtudagskvöldið 4. janúar 1990 eftir að Alfreð fékk afhenta styttuna fallegu sem nafnbótinni fylgdi frá upphafi kjörsins árið 1956 , allt þar til 2005 – í 50 ár. Á myndinni með honum er Sigríður Sigurðardóttir, handboltakona úr Val, fyrsta konan sem kjörin var Íþróttamaður ársins, 1964 eftir að Ísland varð Norðurlandameistari.

Þegar þarna var komið sögu lék Alfreð með Elgorriaga Bidasoa á Spáni við frábæran orðstír. Hann hóf ferilinn með KA eins og alkunna er en lék einnig með KR áður en hann hélt í víking og samdi við Tusem Essen í Vestur-Þýskalandi. Alfreð varð Þýskalandsmeistari 1986 og 1987 með Essen áður en hann hélt til Spánar.

Eftir frábæran feril sem leikmaður snéri Alfreð sér að þjálfun þar sem hann hefur náð stórkostlegum árangri. Þjálfaraferillinn hófst þegar hann flutti heim og tók við KA, sem varð bæði bikarmeistari og Íslandsmeistari undir stjórn hans. Fyrsta þjálfarstarf Alfreðs erlendis var hjá Hameln í Þýskalandi, síðan tók hann við Magdeburg, þá Gummersbach og loks Kiel sem hann þjálfaði rúman áratug og náði ótrúlegum árangri. Þá má ekki gleyma því að Alfreð þjálfaði landslið Íslands frá 2006 til 2008.

Alfreð hefur verið landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta síðan snemma árs 2020.