Eining-Iðja styrkir Velferðarsjóðinn
Verkalýðsfélagið Eining-Iðja afhenti Velferðarsjóði Eyjafjarðarsvæðis 1.250.000 krónur í styrk þegar tveir stjórnarmenn sjóðsins litu við á skrifstofu félagsins á Akureyri fyrir helgi.
Á myndinni eru, frá vinstri, Guðlaugur Agnar Pálmason stjórnarmaður í Velferðarsjóði, Tryggvi Jóhannsson varaformaður Einingar-Iðju, Baldvin Valdemarsson, stjórnarmaður í sjóðnum, og Elsa Sigmundsdóttir skrifstofustjóri á verkalýðsfélaginu.
Á vef Einingar-Iðju segir í dag:
Fyrir hver jól sendir sjóðurinn bréf til fyrirtækja þar sem minnt er á jólaaðstoðina og óskað eftir styrk. Þar segir m.a. að í ár megi búast við að svipaður fjöldi eða fleiri umsóknir um jólaaðstoð berist fyrir jólin líkt og fyrir síðustu jól. „Í reglubundnum úthlutum sjóðsins höfum við séð að þörfin fyrir og eftirspurn eftir aðstoð hefur stóraukist ár frá ári. Framundan eru þungir mánuðir fyrir mörg heimili á svæðinu og ljóst að gera má ráð fyrir að jólaaðstoð 2025 verði stórt verkefni,“ „Árið 2024 óskuðu yfir 520 fjölskyldur og einstaklingar eftir jólaaðstoð. Í ár hafa mánaðarlegar úthlutanir verið vel yfir 500 talsins og er þá jólaaðstoðin ótalin.Það fé sem safnast nú fyrir jólin verður notað til kaupa á gjafakortum í matvörubúðum sem afhendast efnaminni fjölskyldum og einstaklingum á Eyjafjarðarsvæðinu.“
Fram kemur á heimasíðu sjóðsins að opnað verður fyrir umsóknir um jólaaðstoð fimmtudaginn 20. nóvember.
VELFERÐARSJÓÐUR EYJAFJARÐARSVÆÐIS
- Frá árinu 2013 hafa Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og Rauði krossinn við Eyjafjörð haft samstarf um jólaaðstoð til einstaklinga og fjölskyldna sem á þurfa að halda á Eyjafjarðarsvæðinu.
„Allir styrkir og allt fé sem safnast í sjóðinn verður notað óskipt til kaupa á gjafakortum í matvörubúðum sem afhendist efnaminni fjölskyldum og einstaklingum á Eyjafjarðarsvæðinu,“ sagði í tilkynningu sjóðsins nýverið.
Þeir sem vilja styrkja sjóðinn geta sent tölvupóst á netfangið jolaadstod@gmail.com eða lagt beint inn á reikning Velferðarsjóðs Eyjafjarðar:
- Reikningur: 0302 - 26 - 003533
- Kennitala: 651121-0780