Fara í efni
Fréttir

Eining-Iðja fagnar viðbrögðum bæjarins

Verkalýðsfélagið Eining-Iðja „fagnar því að bæjaryfirvöld á Akureyri séu tilbúin til samtals um nýtt fyrirkomulag leikskólagjalda. Við þökkum Heimi Erni Árnasyni, formanni bæjarráðs, fyrir viðbrögð hans við ábendingum okkar.“

Þetta segir í yfirlýsingu frá félaginu sem formaðurinn, Anna Júlíusdóttir, sendi Akureyri.net í morgun.

„Við teljum að markmið breytinganna séu góð og mikilvæg. Það er jákvætt að kerfið miðar að því að veita tekjutengdan afslátt til þeirra sem þurfa á honum að halda. Hins vegar teljum við að þróa þurfi kerfið áfram og stilla það af til að það nái markmiðum sínum um að vera jafnt og sanngjarnt fyrir alla,“ segir í yfirlýsingunni.

Anna gagnrýndi harðlega í gær breytingar sem taka gildi í haust, sagði þær munu hafa veruleg áhrif á fjárhag margra barnafjölskyldna, sérstaklega þeirra tekjulægstu, og krafðist þess að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Heimir Örn sagði í gær að leikskólagjöld mjög margra muni lækka með nýju kerfi sem tekur gildi í haust. „Fleiri fá afslátt en áður og við teljum okkar vera að grípa mjög marga – við hjálpum fleirum en hingað til,“ segir hann við Akureyri.net.

Smellið hér til að lesa yfirlýsingu Einingar-Iðju í morgun