Fara í efni
Fréttir

Eini skóli landsins alfarið á netinu

Kristrún Lind Birgisdóttir skólastjóri Ásgarðsskóla og framkvæmdastjóri Ásgarðs í skýjunum.

Ásgarðsskóli – skóli í skýjunum er eini skólinn á Íslandi sem rekinn er alfarið á netinu. Skólinn er tilraunaverkefni með rekstrarleyfi menntamálaráðuneytisins til tveggja ára. Kristrún Lind Birgisdóttir á Akureyri er eigandi og framkvæmdastjóri félagsins Ásgarður í skýjunum (AIS ehf), og skólastjóri Ásgarðsskóla. Hún vonast til að Ásgarðsskólaverkefnið hreyfi við, og hafi þau samfélagslegu áhrif, að skóli í skýjunum verði valkostur fyrir nemendur í framtíðinni

Reykjavík - Reykhólahreppur

Ásgarðsskóli er með þjónustusamning við sveitarfélagið Reykhólahrepp. „Það þarf bara eitt sveitarfélag til að búa til festi. Maður má ekki reka grunnskóla nema vera með þjónustusamning við a.m.k. eitt sveitarfélag, og hafa fimm starfsmenn. Börnin sem við erum að taka til okkar núna eru millifærð frá t.d. Reykjavíkurborg til Reykhólahrepps og Reykhólahreppur greiðir okkur fyrir að sjá um þessi börn. Það má eiginlega segja að Reykhólahreppur hafi tvo skóla, þ.e. grunnskólann sem Reykhólahreppur rekur og skólann í skýjunum, sem ég rek,“ segir Kristrún við Akureyri.net.

Mikilvægt að kenna við krefjandi aðstæður

AIS ehf. sinnir meðal annars sérfræðiráðgjöf við leik- og grunnskóla og við sveitarfélög sem bera ábyrgð á skólamálum. Þau sinna um þessar mundir sveitarfélögum með um 85 leik- og grunnskóla. SSNE (Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra) veitti Ásgarði styrk til að tilraunakenna þvert á sveitarfélög og starfsfólk Ásgarðs er í þeim einstöku aðstæðum að geta tengt sveitarfélögin saman. „Það er gríðarlega mikilvægt verkefni þar sem er verið að kenna börnum úr níu skólum. Það er til að auka stærðarhagkvæmni í fámennum skólum og líka til að koma útfærðum verkefnum til kennara, sem þeir geta síðan byggt á. Við komumst eiginlega að því að það var enginn að hjálpa kennurum. Það var bara verið að gefa út bækur en það var enginn að hjálpa þeim.“

Og Kristrún bætir við:

„Við þurftum líka að sýna fram á í kennsluráðgjöfinni að við hefðum aðrar leiðir sem myndu virka og væru í samræmi við nútímann - þess vegna var mikilvægt fyrir okkur sem ráðgjafa að vera líka að kenna við afar krefjandi aðstæður. Þannig að við erum að þróa starfshætti á sama tíma og við erum að þjónusta börn; sem eru mörg í mjög sérstökum aðstæðum.“

Kristrún nefnir þætti eins og skólaforðun, áföll, bráðlyndi, búsetu erlendis hluta úr ári eða allt árið vegna íþróttaiðkunar eða hreinlega út af vinnu foreldra. Einnig börn með félagskvíða og börn með fjölþættan vanda. Hún segir að það sé ekki markmið að hver og einn nemandi sé í skólanum í fimm, sjö eða tíu ár, heldur að hjálpa þeim að ná fótfestu og gera þeim kleift að komast aftur í sinn skóla; að koma þeim út í lífið.

Margir skólar bíða

„Það er svo margt sem við getum þróað þegar við fáum tækifæri til að starfrækja skóla. Við erum með fáa nemendur en þurfum að vinna gríðarlega mikla vinnu til að skipuleggja allt námið í heilum skóla. Við ákváðum að taka það alla leið og vinna út frá viðmiðum um gæðastarf frá Reykjavíkurborg og ríkinu og gefa öðrum skólum kost á að nýta efnið líka. Kerfið sem við erum að vinna í heitir learnCove og er sérsniðið til að veita efni til kennara og nemenda. Við erum að æfa okkur og erum með fjórtán tilraunaskóla með okkur í því og margir bíða eftir að fá að vera með.

Hægt að kenna án texta og vinnubóka

Tilgangur skólans í skýjunum er því að hluta til leið til að sýna fram á að hægt sé að einstaklingsmiða og persónugera nám, jafnvel í 30 manna bekk. Það snýst um hvernig verkefnin eru sett fram. Kristrún vill sýna fram á að það sé hægt að leysa nám og kennslu með öðrum hætti heldur en með texta og vinnubókum.

Vefur Ásgarðsskóla