Fara í efni
Fréttir

Ein þyrla LHG verði staðsett á Akureyri

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, segir í Morgunblaðinu í dag að leysa megi húsnæðisvanda flugsveitar Landhelgisgæslunnar með því að staðsetja eina þyrlu hennar á Akureyrarflugvelli. Það myndi vitaskuld einnig styrkja leit og björgun á norður- og austurhluta landsins og gæti verið liður í uppbyggingu björgunarmiðstöðvar á Akureyri.

Morgunbaðið greindi frá því í vikunni að eftir að þriðja leiguþyrla Gæslunnar kom til landsins sé ekki lengur pláss fyrir öll loftför LHG í flugskýli hennar á Reykjavikurflugvelli. Eina þyrlu eða flugvél þurfi að geyma utandyra.

Njáll segir í blaðinu að ekki sé vilji hjá meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur að Gæslan geti byggt upp sómasamlega aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli en ekki ætti að vera vandamál að byggja upp slíka aðstöðu á Akureyri, jafnvel við nýju flughlöðin sem verið er að útbúa á Akureyrarflugvelli.

Þetta er fráleitt í fyrsta skipti sem bent er á að ákjósanlegt væri að hafa eina þyrlu Gæslunnar staðsetta á Akureyri. Fróðlegt verður að sjá hvort húsnæðisvandræði stofnunarinnar verði loksins til þess að eitthvað gerist.