Fara í efni
Fréttir

Ein stærsta snekkja heims á Akureyri

Snekkjan merkilega og Sleipnir, dráttarbátur Akureyrarhafnar, í Krossanesvíkinni í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ein stærsta snekkja í heimi sigldi inn Eyjafjörð í kvöld og verður í Krossanesvíkinni á næstunni. Hún kallast einfaldlega A, er í eigu rússnesks viðskiptajöfurs, Andrey Melnichenko, og verður hér um tíma – jafnvel nokkrar vikur, eftir því sem næst verður komist. Snekkjan er 142 metra löng og möstrin ná 100 metra hæð, sem er ástæða þess að A siglir ekki inn á Pollinn; möstrin gætu truflað flugumferð. Til gamans má geta til samanburðar að Hallgrímskirkjuturn er 75 metra hár!

Andrey Igorevich Melnichenko er 49 ára milljarðamæringur. Samkvæmt viðskiptaritinu Forbes var hann 95. ríkasti maður heims í síðasta mánuði og sjöundi ríkasti Rússinn. Hann er ekki um borð í A skv. heimildum Akureyri.net en er sagður væntanlegur.

Melnichenko á aðra snekkju sem hann kallar A; til aðgreiningar er þessi nefnd seglsnekkjan A, þótt hún gangi einnig fyrir vélarafli, en hin vélsnekkjan A. Sú síðarnefnda kom til Akureyrar 2016 og var á Pollinum um tíma. Vakti hún mikla athygli fyrir óvenjulegt útlit.

Seglsnekkjan A í Krossanesvíkinni í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.