Fara í efni
Fréttir

Ein milljón til KAON úr minningarsjóði Baldvins

Baldvin Rúnarsson heitinn sem lést aðeins 25 ára að aldri árið 2019. Myndin er tekin þegar Ragnheiður Jakobsdóttir stjórnarmaður í minningarsjóðnum og móðir Baldvins, til vinstri, afhenti Evu Björg Óskarsdóttur frá KAON styrk fyrir nokkrum árum.
Einni milljón króna hefur verið úthlutað úr Minningarsjóði Baldvins Rúnarssonar til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Það er gert í dag í tilefni þess að 15. janúar er afmælisdagur Baldvins heitins, sem lést 2019 aðeins 25 ára að aldri.
 
„Styrknum er ætlað að styðja við Heilsueflingarsjóð KAON sem var stofnaður 15. janúar 2020 fyrir tilstuðlan framlags frá Minningarsjóði Baldvins. Með úthlutuninni í dag hefur minningarsjóðurinn nú lagt alls 3,5 milljónir króna í verkefnið,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum.
 
„Síðan Heilsueflingarsjóðurinn var stofnaður í samstarfi við Minningarsjóð Baldvins hefur félagið geta boðið upp á ýmsa heilsueflingu fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein. Yoga nidra námskeið hjá Sjálfsrækt hafa verið mjög vinsæl hjá okkur og geta bæði einstaklingar sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur mætt á þau námskeið,“ segir Marta Kristín Rósudóttir, verkefnastjóri hjá KAON og heldur áfram. „Að auki hefur félagið boðið einstaklingum með krabbamein eða þeim sem eru í endurhæfingu upp á ræktarkort. Við erum þakklát fyrir stuðninginn.“
 
Krabbameinsfélagið reyndist Baldvini vel þegar hann háði sína baráttu, segir í tilkynningunni frá minningarsjóðnum. „Það er afar mikilvægt að hafa öflugt krabbameinsfélag í heimabyggð sem styður á margvíslegan hátt við fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur þeirra.“