Fara í efni
Fréttir

Eftirlegukindur í nágrenni Lamba!

Ljósmynd: Ármann Hinrik

Fimm eftirlegukindur voru sóttar langt inn á Glerárdal á föstudag eins og Akureyri.net greindi frá um helgina. Á laugardag sáu leitarmenn 17 kindur til viðbótar og hópur manna hélt því á þær slóðir í gær og kom öllum til byggða.

Farið var á fimm vélsleðum um tíuleytið í gærmorgun með þrjár kerrur sem féð var dregið á framan úr dal og niður á Súluplan, bílastæðið þar sem göngugarpar leggja gjarnan þegar haldið er á fjallið fallega. Leiðin inn eftir er um 11 kílómetrar. Fara þurfti tvær ferðir og komið var með síðustu kindurnar niður um kl. 18.30.

Færið var afar erfitt, of mikill snjór í dalnum til þess að mögulegt væri að reka féð en á löngum köflum í raun of lítill snjór til að hægt væri að vera þar á sleðum því þar var nánast eingöngu ekið á grjóti ...

Féð sem sótt var í gær hélt sig í grennd við skála Ferðafélags Akureyrar, Lamba – og í raun vel við hæfi að vera á þeim slóðum! Þarna var fé bæði úr Eyjafjarðarsveit og Hörgársveit og sumar skjáturnar ekki að finnast á þessum stað og svona seint.

Sigurður fjallageit Baldursson sá um að flytja kindurnar, vaskir drengir úr hópi bænda og aðstoðarmanna þeirra voru með í för til að smala fénu auk þess sem Siggi fékk tvo gamla „lærisveina“ til liðs við sig, Sigurgeir Haraldsson og Ármann Hinrik. Svo heppilega vill til að báðir eru flinkir ljósmyndarar og lesendur Akureyri.net njóta góðs af því í dag.