Fara í efni
Fréttir

Efnisleki í Endurvinnslunni við Furuvelli – íbúar í grennd haldi sig inni

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Efnisleki varð í flöskumótttöku Endurvinnslunnar við Furuvelli eftir hádegi, lögregla hefur vegna þessa lokað nokkrum götum í nágrenninu, biður fólk á svæðinu sunnan við Furuvelli um að halda sig innandyra og hafa glugga lokaða.
 
Samkvæmt upplýsingum Akureyri.net er um að ræða flösku sem komið var með í móttökuna. Í flöskunni þótti vera grunsamlegt efni sem ekki var vitað hvað er og því gripið til áðurnefndra ráðstafana. Um lítið magn er að ræða skv. upplýsingum á Facebook síðu lögreglunnar, en meðan verið er að ná stjórn á vettvangi er talið hyggilegt að gæta fyllstu varúðar. 
 
Slökkvilið og lögregla eru við störf á vettvangi og biðja vegfarendur um að sýna tillitssemi og virða lokanir. Lögreglumenn með gasgrímur ganga í hús í nágrenninu og loka ákveðnum leiðum. Svæðið í kringum Oddeyrarskóla er lokað fyrir óviðkomandi umferð; Víðivellir, Reynivellir, Grenivellir og Sólvellir.
 

Lögreglumaður á horni Reynivalla og Víðivalla, steinsnar frá Oddeyrarskóla, ræðir við vegfaranda. 

 

Lokað fyrir umferð. Þetta er á horni Norðurgötu og Grenivalla. Íþróttahús Oddeyrarskóla og blokkir við Sólvelli í fjarska.