Fara í efni
Fréttir

Edelweiss-flugið bókað á vef Swiss

Vél Edelweiss í kvöldsólinni á Akureyrarflugvelli föstudagskvöldið 7. júlí. Vakin er athygli á að bókanir frá Akureyri með Edelweiss fara fram í gegnum vef systurfélags þess, Swissair. Ljósmynd: Þórhallur Jónsson - Pedromyndir.

Eitthvað hefur borið á því að fólk eigi í erfiðleikum með að finna leið til að bóka flug með flugfélaginu Edelweiss frá Akureyri til Zürich í Sviss, en fyrsta flug félagsins var frá Zürich til Akureyrar síðastliðinn föstudag og svo aðfararnótt laugardags héðan og út aftur. 

Af einhverri ástæðu er á vef Edeilweiss eingöngu hægt að bóka flug að utan, þ.e. frá Zürich til Akureyrar, en ferðaþyrst þurfa ekki að örvænta því systurfélag Edelweiss, Swissair, er með bókunarvél á sínum vef þar sem báðar leiðirnar eru í boði: https://www.swiss.com/xx/en/homepage

Ýmsar leiðir í boði frá Akureyri

Þrátt fyrir brotthvarf Niceair af markaðnum eru ýmsir möguleikar fyrir Akureyringa og aðra Norðlendinga til að ferðast til Evrópu beint frá Akureyri. Á vef Markaðsstofu Norðurlands er að finna upplýsingar um bein flug til Akureyrar.

  • Eitt stærsta flugfélag Evrópu, easyJet, mun fljúga beint frá Gatwick í London til Akureyrar næsta vetur í áætlunarflugi. Flugfélagið hefur opnað fyrir bókanir, en fyrsta flugferðin verður 31. október. Flogið verður tvisvar í viku, á þriðjudögum og laugardögum, út mars 2024 - www.easyjet.co.uk.

  • Svissneska flugfélagið Edelweiss býður beint flug til Akureyrar frá Zurich, yfir sjö vikna tímabil sumarið 2023 eða frá 7. júlí til 18. ágúst. Sjá: www.flyedelweiss.com/en. Til þess bóka flug sem byrjar á Íslandi þarf að bóka í gegnum Swissair - https://www.swiss.com/xx/en/homepage.

  • Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel flýgur með farþega bæði á veturna og sumrin og það er flugfélagið Transavia sem sér um þær ferðir. Íslendingar geta keypt ferðir til Hollands hjá ferðaskrifstofunni Verdi - www.verditravel.is.

  • Á tímabilinu 15. október til 30. nóvember 2023, mun Icelandair bjóða upp á flug á milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar í tengslum við millilandaflug sitt. Á tímabilinu verður flogið þrisvar sinnum í viku frá Akureyri til Keflavíkur, á mánudögum, fimmtudögum og laugardögum klukkan 5:50 að morgni og þrisvar sinnum í viku frá Keflavík til Akureyrar á miðvikudögum klukkan 21:20 og föstudögum og sunnudögum klukkan 17:15 - www.icelandair.is.