Fara í efni
Fréttir

Dýralæknar harma bann við lausagöngu katta

Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Dýralæknafélag Íslands harmar að bæjarstjórn Akureyrar hafi samþykkt bann við lausagöngu katta í bænum. Bannið muni setja marga kattaeigendur í mjög erfiða stöðu þar sem fyrirvarinn er aðeins þrjú ár og það er mat félagsins að með banninu sé vegið að eðlislægu atferli kattarins og velferð, eins og segir í ályktun félagsins.

Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, sendi eftirfarandi ályktun fyrir hönd félagsins í morgun:

Ályktun Dýralæknafélags Íslands um bann við lausagöngu katta

Dýralæknafélag Íslands (DÍ) harmar að bæjarstjórn Akureyrar hafi samþykkt bann við lausagöngu katta í bænum frá 1. janúar 2025.

DÍ þykir sérstakt að það skuli gengið svona hart til verks, í stað þess að framfylgja samþykktum Akureyrarbæjar sem eru í gildi. Líftími katta er að meðaltali 14-18 ár, því eru sólarlagsákvæði um að bannið skuli taka gildi eftir einungis rúm 3 ár allt of stutt. Afar erfitt er að loka kött inni, sem er nú þegar vanur að fara sinna ferða.

Þetta mun setja marga kattaeigendur í erfiða stöðu, þar sem valið mun jafnvel standa á milli þess að láta aflífa gæludýrið sitt eða koma því á nýtt heimili utan bæjarins. Kostir þess að umgangast gæludýr eru vel þekktir og gæludýr geta aukið lífsgæði bæði hjá börnum og fullorðnum í formi andlegs- og líkamlegs ávinnings.

Kettinum er eðlislægt að kanna umhverfi sitt og að leyfa þeim að ganga frjálsum veitir þeim andlega örvun og minnkar streitu hjá þeim. Utandyra geta þeir iðkað sína náttúrlega hegðun eins og að klóra og merkja. Útiumhverfið er flókin blanda af mismunandi lykt, hljóðum, áferð o.fl sem er sí breytilegt og fullnægir þeirra eðlislæga atferli. Þó sumir kettir, sem þekkja ekki annað, sætti sig við að vera innikettir eru fleiri sem höndla það ekki og getur innilokun leitt til streitu og hegðunar-vandamála vegna vanlíðunnar t.d. merkinga eða árásargirni.

Varðandi áhrif lausagöngu heimiliskatta á fuglalíf, eru engar skýrar vísindalegar sannanir fyrir því að lausagöngubann katta hafi jákvæð áhrif á fuglastofna. Dýralæknafélag Íslands telur það mun raunhæfari lausn að taka á vandanum á annan hátt en með að banna lausagöngu. Til dæmis má nefna átak í fækkun villikatta, aukna fræðslu til eigenda um leiðir til að draga úr veiðigetu ( t.d bjöllur, kragar) og útgöngubanni að næturlagi (17-09) á varptíma fugla. Með þessu er hægt að draga úr tjóni á lífríki án þess að hafa áhrif á velferð katta.

Það er því mat Dýralæknafélags Íslands að með banninu er vegið að eðlislægu atferli kattarins og velferð hans.

Bára Eyfjörð Heimisdóttir,
formaður Dýralæknafélags Íslands

Frétt Akureyri.net á þriðjudaginn: Lausaganga katta verður bönnuð 2025