Drengur ógnaði yngri börnum með hnífi
Sérsveit lögreglu á Akureyri var kölluð út síðastliðið laugardagskvöld þegar drengur, undir lögaldri, ógnaði tveimur yngri börnum með hníf á lóð Síðuskóla.
RÚV fjallar um málið í dag og segir að í kjölfarið hafi foreldrar barna í hverfinu fundað með lögreglu og kallað eftir aðgerðum. „Þetta var ekki í fyrsta sinn sem drengurinn sýnir af sér ógnandi hegðun. Lögregla hefur vaktað hverfið eftir atvikið,“ segir í frétt RÚV.
Birkir Örn Stefánsson, formaður foreldrafélags Síðuskóla, segir mikilvægt að börn upplifi sig örugg í sínu nærumhverfi. „En það má ekkert gleyma hlutverki okkar foreldra. Bæði í fræðslu og að fylgja börnunum okkar ef þau telja sig vera óörugg, þangað til þau finna öryggi við að geta leikið sér án þess að vera ógnað,“ segir hann í frétt RÚV.
- Smellið á skjáskotið af RÚV hér fyrir neðan til að lesa fréttina
Skarphéðinn Aðalsteinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri segir við Vísi í dag að lögreglan hafi lengi haft áhyggjur af vopnaburði, ekki bara ungmenna heldur fullorðins fólks líka. Mörg dæmi séu um vopnaburð og um síðustu helgi hafi lögreglan tekið þrjú börn, undir 18 ára aldri, með hnífa á Akureyri. Frétt Vísis