Fara í efni
Fréttir

„Skapmikil og leyfum hvort öðru að vera það!“

Eigendur Akureyrar apóteks. Frá vinstri: lyfjafræðingrnir Jónína Freydís Jóhannesdóttir og Gauti Einarsson, Hafdís Bjarnadóttir, eiginkona Gauta, og Ingvi Þór Björnsson, eiginmaður Jónínu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tíu ár eru síðan lyfjafræðingarnir Jónína Freydís Jóhannesdóttir og Gauti Einarsson stofnuðu Akureyrar apótek. „Samstarfið hefur gengið ótrúlega vel. Okkur þykir gaman að vinna saman, erum bæði mjög skapmikil – og leyfum hvort öðru að vera það! Hér kippir sér enginn upp við það þótt einhver æsi sig,“ segir Jónína og hló, þegar Akureyri.net rabbaði við þau í tilefni afmælisins.

„Sennilega var dálítið erfitt að slípa okkur saman en samstarfið hefur verið líkt hjónabandi. Ég þarf stundum að gefa eftir og stundum Gauti, en vorum búin að ákveða að láta þetta ganga, finnum alltaf leið til að leysa allt sem kemur upp og okkur finnst þetta aldrei leiðinlegt, sem skiptir miklu máli.“

„Frábært, æðislegt!

Gauti rifjar upp að þegar hann var nemi hjá Jónínu í gamla Stjörnuapóteki, sem KEA átti og rak við Hafnarstræti, gantaðist hún stundum með það að hún ætlaði að vinna hjá honum þegar hún yrði gömul. „Svo var það einhvern tíma talsvert áður en við fórum af stað að hún að heyrði í mér og spurði hvort ég væri ekki til í að opna með henni apótek. Ég var í annarri vinnu og ekki tilbúinn þá, en eftir Hrunið hugsaði maður hlutina upp á nýtt, við töluðum saman aftur og opnuðum svo hér haustið 2010.“ Þau eiga apótekið fjögur; Jónína og eiginmaður hennar, Ingvi Þór Björnsson, og hjónin Gauti og Hafdís Bjarnadóttir.

Jónína man eftir samtali þeirra Gauta eins og gerst hefði í gær. „Þegar ég lagði símann á sagði ég við manninn minn: ég er að fara að stofna apótek með Gauta! Já! Frábært, æðislegt! sagði hann eins og ekkert væri sjálfsagðara og svo þurfti ekkert að ræða það frekar. Við gengum bara í málið.“

Allt gekk eins og í sögu og þetta eina einkarekna apótek bæjarins hefur blómstrað. Enda eru þau afar þakklát bæjarbúum.

„Viðtökurnar voru miklu betri en við þorðum að vona,“ segir Gauti. „Við vorum hér fjögur til að byrja með, mjög ánægð með allt, meðal annars hve rúmt var um okkur og héldum við þyrftum aldrei að hafa áhyggjur af plássi. En svo sprakk það í raun utan af okkur mjög hratt – sem við erum í sjálfu sér þakklát fyrir. Við hugsum okkur þó alls ekki til hreyfings heldur hugsum í lausnum. Við keyptum pláss af Þroskahjálp sem var í rými fyrir aftan apótekið, og höfum þannig getað stækkað kaffistofu og skrifstofu,“ segir hann, en starfsmenn Akureyrar apóteks eru nú á annan tuginn. Þar af eru fjórir lyfjafræðingar.

Á MORGUN – Gauti gaf Ingva, eiginmanni Jónínu, nýra fyrir rúmum tveimur árum. Akureyri.net ræddi við báða um þá lífsreynslu.

Tíu ár síðan! Starfsmenn Akureyrar apóteks daginn sem starfsemin hófst í nóvember 2010. Frá vinstri: Guðrún Birna Jóhannsdóttir, Gauti Einarsson, Jónína Freydís Jóhannesdóttir og Aðalsteina Tryggvadóttir, sem enn starfar hjá fyrirtækinu - er lyfjatæknir og verslunarstjóri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.