Fréttir
Dagur alltaf í liði mánaðarins í Noregi
08.12.2023 kl. 16:40
Dagur Gautason, handboltamaður úr KA sem leikur með ØIF Arendal í norsku úrvalsdeildinni er eini leikmaðurinn sem valinn hefur verið í lið mánaðarins í öll þrjú skiptin í vetur. Hornamaðurinn snjalli, sem er 23 ára, gekk til liðs við norska félagið í sumar og ekki er ofsagt að hann hafi byrjað frábærlega.
Arendal hefur lokið 13 leikjum í deildinni og er í þriðja sæti, tveimur stigum á eftir toppliði Kolstad. Dagur hefur gert 64 mörk – 4,9 að meðaltali í leik. Hann er með 77% skotnýtingu og er sem stendur áttundi á lista yfir markahæstu leikmenn deildarinnar og markahæstur allra hornamanna.
Til gamans má geta að Dagur skýtur tveimur leikmönnum í 35 manna landsliðshópi Noregs ref fyrir rass ; Sindre Heldal, Elverum (42 mörk – 3,8 að meðaltali í leik) og Adrian Aalberg, Kolstad (39 mörk – 3,2 að meðaltali í leik).
Aðeins Dagur og hin þrautreynda Camille Herrem, leikmaður Sola HK, eru með fullt hús ef svo má segja. Hún leikur einnig í vinstra horni og hefur verið í liði mánaðarins úr norsku kvennadeildinni í öll þrjú skiptin í haust. Herrem, sem orðin er 37 ára og á að baki glæsilegan feril, er með landsliði Noregs á heimsmeistaramótinu sem stendur yfir.