Fara í efni
Fréttir

BYKO siglir með timbur beint til Akureyrar

Í síðustu viku kom flutningaskip með timbur til Akureyrar beint frá Lettlandi, „til þeirrar miklu uppbyggingar sem nú stendur yfir víða á Norðurlandi. Með þessari nýbreytni sparast m.a. sigling meðfram suðurlandinu til Reykjavíkur og akstur flutningabíla þaðan norður í land. Þessi tilhögun er liður í því verkefni sem kallast „Vistvænt BYKO“ og snýst um að kappkosta umhverfisvænar áherslur fyrirtækisins og lágmarka bæði kolefnisspor BYKO og birgja þess,“ segir í tilkynningu frá BYKO.

„Skipið sigldi með stóran farm, um 2.600 rúmmetra af pallaefni, burðarvið, byggingartimbri og plötum, beint frá framleiðanda til Akureyrar. Um 50 ferðir flutningabíla hefði þurft til að flytja farminn norður og hefðu þeir þá ekið samanlagt um 19.400 kílómetra aðra leiðina. „Við erum að spara tíma, minnka vistsporið og draga úr kostnaði“, segir Anna Lea Gestsdóttir, verslunarstjóri BYKO á Akureyri. „Við drögum líka úr álaginu í vöruhúsi okkar í Reykjavík, höfum timbrið til afhendingar fyrr en ella og látum viðskiptavininn að sjálfsögðu njóta góðs af hagræðingunni. Vonandi gefur þetta tóninn fyrir enn frekari áherslur á fyrsta flokks þjónustu BYKO hér á Norðurlandi.“

Berglind Ósk Ólafsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá BYKO, segir vonir standa til að fleiri sendingar fari milliliðalausa sjóleið beint á Akureyri í framtíðinni. „Vistvænt BYKO er metnaðarfull umhverfisstefna fyrirtækisins í eigin starfsemi og samvinnu við birgja, til að minnka vistspor fyrirtækisins og virðiskeðjunnar eins og frekast er unnt“, segir Berglind. „Helstu birgjar BYKO í timbri eru með FSC-rekjanleikavottun þannig að hægt er að rekja timbrið til sjálfbærrar skógræktar einstakra framleiðenda. Það liggur því beint við í framhaldinu að reyna að halda flutningnum á timbrinu eins sjálfbærum og hægt er.“