Fara í efni
Fréttir

Búist við 20-25 gráðu hita næstu daga

Veðurspáin í fréttatíma Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi.

Akureyringar mega búast við frábæru veðri í dag og næstu daga. Mögulega eitthvað svalara á sunnudag.

Samkvæmt staðarspá fyrir Akureyri má búast við frábæru veðri í dag og næstu daga, jafnvel svo að heita megi óvenju gott í hugum Akureyringa sjálfra. Búast má við allt að 20 gráðu hita í dag, en næstu daga gæti hitinn farið upp í 24 gráður samkvæmt veðurspánni.

Spáin fyrir Norðurland eystra í dag, gerð í morgun kl. 9:50: Suðvestlæg eða breytileg átt, 3-8 metrar á sekúndu og léttskýjað. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast inn til landsins. Bjart með köflum á morgun og hlýnar heldur.

Akureyringar ættu því að geta fagnað saman í dýrindis veðri á þjóðhátíðardaginn, en mögulega verður eitthvað svalara á sunnudag, 18. júní.

Hrafn Guðmundsson veðurfræðingur flytur landsmönnum veðurfréttir í kvöldfréttatíma RÚV í gærkvöldi. Þetta var spáin fyrir daginn  í dag.

Ekki aðeins á Akureyri

Akureyri.net hafði samband við Birgi Örn Höskuldsson, veðurfræðing á vakt hjá Veðurstofunni, til að forvitnast um veðurhorfurnar hér á svæðinu. Birgir Örn upplýsti að búast mætti við flottu veðri í dag og á morgun, hlýju og þurru. „Síðan er fimmtudagurinn líka ágætur, en þá eru kannski líkur á einhverjum síðdegisskúrum. Föstudagurinn er svipaður og fimmtudagurinn, sæmilega hlýtt,“ sagði Birgir Örn í samtali við Akureyri.net.

Birgir Örn upplýsti reyndar í leiðinni um þau óvæntu tíðindi að góða veðrið væri ekki aðeins á Akureyri! „Í dag er í raun mjög víða hlýtt og gott veður um allt land. Helst þó að það sé svalara við vestur- og austurströndina, en á morgun verður hlýtt um allt land,“ segir Birgir Örn.